Skoðun

Heimilislausir námsmenn af landsbyggðinni

Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir skrifar

Stöðug umræða er um húsnæðisvandamál stúdenta og barnafjölskyldna, enda er staða þeirra grafalvarleg. En á sama tíma er annar hópur í stöðugri húsnæðisleit en er hvergi í forgangi. Þetta er ungt fólk sem flytur af landsbyggðinni til að stunda nám í einhverjum af þrettán framhaldsskólum höfuðborgarsvæðisins. Á höfuðborgarsvæðinu er mesta fjölbreytni landsins í náms- og vinnuframboði og því vel skiljanlegt að unglingar leiti þangað til að fara í framhaldsskóla.



Að byrja í framhaldsskóla er mikil breyting. Breytingin er enn meiri fyrir þá sem neyðast til þess að flytja frá fjölskyldu sinni til að stunda það nám sem þeir vilja. Sem betur fer eru heimavistir og nemendagarðar um allt land þar sem nemendur geta búið sér til heimili út skólagönguna. Nema það er ekki í boði á höfuðborgarsvæðinu. Allar lausnir á húsnæðisvanda ungs fólks beinast að barnafólki og háskólafólki. Það þýðir að ef ungmenni vill stunda nám á höfuðborgarsvæðinu þá eru miklar líkur á því að húsnæðisvandamál hefjist á sextánda aldursári. Sumir eru þó heppnir.



Ættingjar eða vinafólk gætu boðist til að hýsa nemann út skólagönguna. Svo er bara að krossa fingur um að sambúðin verði góð en það er ekki sjálfgefið. Þeir sem geta ekki leitað til ættingja verða að leigja á almennum markaði. Sú staða er algengust. Dæmi eru um einstaklinga sem leggja ekki í þessar aðstæður og þurfa því að hætta við að stunda nám á höfuðborgarsvæðinu.



Því tel ég að heimavist á höfuðborgarsvæðinu sé skref í rétta átt til að betrumbæta stöðu aðfluttra framhaldsskólanema. Á Íslandi eru 12 heimavistir fyrir framhaldsskólanema en engin þeirra er á höfuðborgarsvæðinu.



Nemandi á höfuðborgarsvæðinu á betri möguleika á því að stunda nám hvar sem er á landinu heldur en nemandi af landsbyggðinni að stunda nám á höfuðborgarsvæðinu. Nemendur á Íslandi hafa rétt á því að stunda nám þar sem þeir vilja á grundvelli jafnréttislaga.

Ég skora á stjórnvöld að leysa þennan vanda.



Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu þann 17. maí.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Bestu árin

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir,Sigríður Gísladóttir skrifar

Sjá meira


×