Innlent

Reykjanesbær verður við beiðni Gunnars Þórðarsonar og „Gamli bærinn minn“ ekki spilað

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Tónlistarmaðurinn Gunnar Þórðarson.
Tónlistarmaðurinn Gunnar Þórðarson. Vísir/GVA
Ljósanæturhátíðin í Reykjanesbæ var sett venju samkvæmt við Myllubakkaskóla í gærmorgun. Hátíðin stendur til sunnudags og kennir ýmissa grasa. Þá hefur vakið athygli ákvörðun Gunnars Þórðarsonar, eins dáðasta listamanns þjóðarinnar, að meina skipuleggjendum að spila lag hans „Gamli bærinn minn“ fyrir flugeldasýninguna á laugardagskvöldið.

Hátíðin fer fram í 17. skipti en venju samkvæmt eru heimamenn í helstu aðalhlutverkum hvort sem við kemur tónlist, myndlist eða öðrum viðburðum. Heimatónleikar eru á sínum stað en einn af hápunktum Ljósanætur eru stórtónleikar á laugardagskvöldið með stórsveit Magnúsar Kjartanssonar en auk þess kemur Páll Óskar fram. Nánar um dagskrána hér.

Flugeldasýningin verður með hefðbundnum hætti að því frátöldu að lag Gunnars Þórðarsonar, „Gamli bærinn minn“, verður ekki spilað í aðdraganda sýningarinnar. Gunnar sagði í tilkynningu í vikunni að ástæðuna mætti rekja til framkomu einnar af undirstofnunum Reykjanesbæjar við fjölskyldu sína.

Gunnar segir í samtali við Vísi að skipuleggjendur ætli að virða ákvörðun hans og spila ekki lagið. Gunnar vill ekki tjá sig nánar um deilur fjölskyldu hans við bæinn. Valgerður Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Ljósanætur, vildi ekki tjá sig um málið í samtali við Vísi í gær.

Hlusta má á „Gamli bærinn minn“ hér að neðan.


 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×