Innlent

Þrjú umferðarslys á korteri á Suðurlandi í gærkvöldi

Atli Ísleifsson skrifar
Lögregla var með mikið umferðareftirlit um verslunarmannahelgina.
Lögregla var með mikið umferðareftirlit um verslunarmannahelgina. Vísir/Jóhann K. Jóhansson
Lögreglan á Suðurlandi hafði í nógu að snúast í gær og þurfti meðal annars að hafa afskipti vegna þriggja umferðarslysa sem urðu á um fimmtán mínútna tímabili í gærkvöldi.

Umferð tók að þyngjast upp úr hádegi og var mikil fram eftir degi og fram á kvöld, en gekk í heildina vel.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Selfossi ók kona á mótorhjóli út af veginum við Uxahryggi skömmu fyrir klukkan sjö í gærkvöldi og kastaðist af hjólinu. Þyrla Landhelgisgæslunnar var fengin til að sækja konuna og hún flutt á Landspítalann í Fossvogi.

Nokkrum mínútum síðar var svo tilkynnt um bíla sem hafði verið ekið út af veginum rétt austan við Selfoss annars vegar og á Þingvallavegi hins vegar. Þar urðu þó ekki slys á fólki.

Ökumenn látnir blása við Landeyjahöfn

Lögreglan á Suðurlandi var með mikið eftirlit á veginum að Landeyjahöfn þar sem ökumenn voru látnir blása.

Að sögn lögreglunnar á Selfossi voru að minnsta kosti átta ökumenn stöðvaðir þó að þeir kunni að hafa verið fleiri, en enn átti eftir að fá endanlegar tölur frá lögreglustöðinni á Hvolsvelli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×