Innlent

Óska eftir áliti siðanefndar á umdeildum ummælum

Bjarki Ármannsson skrifar
Ekki eru allir sáttir við ummæli Óttars í Föstudagsviðtali Fréttablaðsins.
Ekki eru allir sáttir við ummæli Óttars í Föstudagsviðtali Fréttablaðsins. Vísir/Ernir
Rótin, félag um málefni kvenna með áfengis- og fíknivanda, hefur sent siðanefnd Læknafélags Íslands erindi vegna ummæla Óttars Guðmundssonar geðlæknis í Föstudagsviðtali Fréttablaðsins fyrir rúmri viku. Félagið telur mörg ummæli Óttars í viðtalinu grafa undan fórnarlömbum ofbeldis og gera lítið úr meðferð við áföllum.

Viðtalið vakti mikla athygli og gagnrýndu margir orð Óttars. Í viðtalinu talaði hann meðal annars um það sem hann vill meina að sé ofnotkun á orðunum áfallastreita og áfallastreituröskun.

„Ég held það sé líka ágætt að vinna sjálfur úr ákveðnum hlutum og sætta sig við að svona er lífið,“sagði Óttar meðal annars í því samhengi. „Maður sé ekki alltaf að kalla eftir aðstoð hins opinbera, það eigi ekki alltaf einhver annar að bera ábyrgð á fólki.“

Sjá einnig: Enginn má lenda í neinu

Rótin óskar í erindi sínu eftir áliti siðanefndarinnar á því hvort ákveðin ummæli Óttars samræmist ábyrgð lækna samkvæmt siðareglum Læknafélags Íslands. Bréf Rótarinnar má sjá í heild sinni í viðhengi við þessa frétt.

Framkvæmdastjóri Geðhjálpar og þekktir Íslendingar með geðsjúkdóma gagnrýndu Óttar opinberlega í kjölfar viðtalsins. Sagði Halldór Auðar Svansson, borgarfulltrúi Pírata, til að mynda að Óttar væri haldinn „frekar fornu viðhorfi“ þegar kemur að úrvinnslu áfalla.

Sjá einnig: Orð Óttars vekja hörð viðbrögð

Óttar tjáði sig um málið í útvarpsþættinum Harmageddon í morgun og sagði þar að sér þætti leiðinlegt að heyra hve margir hefðu misskilið orð hans. Hann sé ekki andstæðingur þess að hjálpa fólki í gegnum áföll þó hann sé þeirrar skoðunar að ekki eigi að sjúkdómsvæða allt.

Rótin gerir einnig athugasemd við það að Óttar „dragi í efa að áföll hafi áhrif á fíknivanda“ og „geri lítið úr áhrifum kynferðisofbeldis á þolendur.“

„Við teljum sérstaklega skaðlegt að ummælin komi frá geðlækni,“ segir meðal annars í bréfinu.


Tengdar fréttir

Enginn má lenda í neinu

Óttar Guðmundsson ræðir ferilinn, fíknisjúkdóma og dálæti fjölmiðla á viðtölum við ,,aumingja vikunnar“. Hann segir engan geta lifað algjörlega sléttri og felldri tilveru. Manneskjan þoli nefnilega ansi margt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×