Handbolti

Hugarfar Evrópumeistara Dags byggt á „Bad Boys“-liði Detroit Pistons

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Dagur Sigurðsson gerði "Bad Boys" að Evrópumeisturum.
Dagur Sigurðsson gerði "Bad Boys" að Evrópumeisturum. vísir/afp
Dagur Sigurðsson, þjálfari Evrópumeistara Þýskalands í handbolta, byggði hugmyndafræði og hugarfar liðsins upp á "Bad Boys"-liði Detroit Pistons sem vann NBA-deildina í körfubolta árin 1989 og 1990.

Bad Boys-liðið er eitt það frægasta í sögu NBA-deildarinnar og eitt það allra óvinsælasta enda spilaði það gríðarlega fast. Stundum var spilamennska liðsins nær því að vera ofbeldi en körfubolti að margra mati.

Á ráðstefnunni Business and Football í Hörpu í morgun var Dagur spurður hvað hann gerði rétt með þýska landsliðið sem stóð uppi sem Evrópumeistari í janúar þrátt fyrir mikil meiðsli.

"Ég fór á fyrsta liðsfundinn og sagði nákvæmlega það sem mér fannst um liðið. Ég sagði að í liðinu væru góðir strákar þó sigurhefðin væri ekki mikil undanfarin ár. Mér fannst hugrakkir strákar í liðinu en þeir voru ekki sömu baráttuhundarnir og við þekkjum á Íslandi," sagði Dagur er hann sat pallborðsumræður á ráðstefnunni.

"Ég leit í augun á þeim og sagði þeim söguna af Bad Boys-liðinu. Ég var með heimildamyndina og sýndi þeim. Ég sagði þeim að fara heim og horfa á hana. Svo vorum við með veggspöld af þeim í búningsklefanum."

Bill Laimbeer var andlit Bad Boys-liðsins.vísir/getty
Allir verða að taka undir

Dagur sagði að eftir upphaflegu ræðuna um Bad Boys talaði hann ekki oft um þessa hugmyndafræði aftur heldur leyfði leikmönnunum að melta pælinguna og nýta hana sjálfir innan liðsins.

"Þetta kom einstaka sinnum upp en síðan voru það leikmennirnir sem héldu þessu á lofti. Þegar árangurinn náðist og menn fóru að vera stoltir af þessu fór það að leka út að við værum með Bad Boys sem fyrirmynd. Þetta er svona mitt stærsta afrek með liðið," sagði Dagur.

"Maður þarf samt alltaf að hugsa um áhættuna sem maður tekur. Þarna kem ég inn í búningsklefann og segi hvað ég vil gera. Það þarf ekki nema 2-3 leikmenn sem kaupa ekki hvað þú segir til að grafa undan þér. Ef þú ert ekki með allt liðið gengur þetta ekki upp og í staðinn fara svona hlutir að vinna á móti þér."

"Ég var heppinn þarna að vera með ungan og óreyndan hóp sem keypti þessa hugmyndafræði. Svo næstum tveimur árum seinna kemur í ljós að liðið var með sitt einkenni," sagði Dagur Sigurðsson.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×