Innlent

Félag eiginkonu forsætisráðherra skráð á Bresku jómfrúareyjunum

Höskuldur Kári Schram skrifar
Anna Sigurlaug Pálsdóttir, eiginkona Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra.
Anna Sigurlaug Pálsdóttir, eiginkona Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra. Vísir/Valli
Anna Sigurlaug Pálsdóttir eiginkona Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra á félag sem er skráð á Bresku Jómfrúareyjum en félagið var stofnað í ársbyrjun 2008 til að halda utan um fjölskylduarf hennar. Anna upplýsti sjálf um félagið í fésbókarfærslu í gær. Ekki er minnst á félagið í hagsmunaskrá forsætisráðherra en honum er ekki skylt að gefa upp séreignir maka.

Félagið heitir Wintris og var stofnað þegar Anna fékk greiddan arf í tengslum við sölu á Toyota-umboðinu á Íslandi sem var í eigu föður hennar Páls Samúelssonar.

Sjá einnig: Forsætisráðherrafrúin Anna Stella: Greinir frá erlendu félagi á Facebook

Fram kemur í fésbókarfærslu Önnu að þegar félagið var stofnað hafi þau hjónin búið í Bretlandi og óljóst hvort þau myndu búa þar áfram eða flytja til Danmerkur. Þess vegna hafi verið einfaldara að skrá félagið í alþjóðlegu umhverfi. Anna segir ennfremur að hún hafi aldrei farið leynt með tilvist félagsins. Allir skattar séu greiddir á Íslandi og allar eignir taldar fram á skattframtölum. Félagið sé hins vegar hundrað prósent í hennar eigu þó hjónin séu samsköttuð hér á landi.

Ekki liggur fyrir hversu miklar eignir eru í félaginu en samkvæmt Viðskiptablaðinu áttu þau hjónin rúmlega einn komma einn milljarð króna umfram skuldir árið 2013.

RÚV greinir frá því að félagið hafi einnig lagt fram kröfu upp á 174 milljónir í þrotabú Landsbankans á sínum tíma.

Samkvæmt upplýsingum frá forsætisráðuneytinu er félagið skráð á Bresku jómfrúareyjum en Anna tiltekur sérstaklega í sinni færslu eignirnar hafi ekki verið notaðar til að fjárfesta í íslenskum fyrirtækjum. Aðeins í einu tilviki hafi það gerst en um er að ræða tíu prósenta hlut íslenska skartgripafyrirtækinu Divine Love.

Eignir Önnu eru ekki skráðar í hagsmunaskrá Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætiráðherra á vef Alþingis. Samkvæmt upplýsingum frá skrifstofu Alþingis er þingmönnum ekki skylt að skrá eignir sem eru að öllu leyti í eigu maka.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×