Innlent

Útilokað að skilja að vændi og mansal

Kristjana Björg Guðbrandsdóttir skrifar
Kvenréttindafélag Íslands deilir hart á afstöðu Amnesty International þegar kemur að vændi.
Kvenréttindafélag Íslands deilir hart á afstöðu Amnesty International þegar kemur að vændi. Nordicphotos/Getty
„Þegar Amnesty Inter­national mælir með því að vændi verði gefið frjálst, er dólgum og vændiskaupendum gefin friðhelgi og mannréttindi kvenna í vændi fótum troðin,“ segir í yfirlýsingu frá Kvenréttindafélagi Íslands.

Tilefni yfirlýsingarinnar er að Amnesty International gaf út endanlega stefnu sem felur meðal annars í sér að vinna að afglæpavæðingu vændisþjónustu. Kaup, sala, milliganga um vændi og rekstur vændishúsa verður látið óátalið. Það telur Kvenréttindafélag Íslands alvarleg mistök sem gangi þvert á mannréttindabaráttu Amnesty.

Kvenréttindafélag Íslands bendir á að það sé ógjörningur að skilja á milli vændis og mansals.

„Kaupendur hafa ekki hugmynd um hvort þær konur sem þeir kaupa eru að selja sig af fúsum og frjálsum vilja eða þær eru gerðar út af mansölum. Ef Amnesty vill uppræta mansal, er mikilvægt að samtökin geri sér grein fyrir að það verður ekki gert nema með því að minnka eftirspurn eftir vændi. Samhliða því þarf að bjóða upp á félagsleg úrræði fyrir þau sem stunda vændi og leiðir út,“ segir í yfirlýsingu félagsins.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 3. júní.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×