Innlent

Píratar óska eftir aðstoð almennings til að fjármagna kosningabaráttuna

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
„ Píratar eru ekki tengdir neinum sérhagsmunahópum og vilja ekki vera það," segir Sigríður Bylgja.
„ Píratar eru ekki tengdir neinum sérhagsmunahópum og vilja ekki vera það," segir Sigríður Bylgja. vísir/ernir/anton
Píratar hyggjast fjármagna kosningabaráttu sína fyrir komandi alþingiskosningar í gegnum hópfjármögnunarsíðuna Karólínafund. Það er í fyrsta sinn sem stjórnmálaflokkur fjármagnar baráttu sína á þennan hátt.

„Við álítum þetta góða leið til að vera eins sjálfstæð og við getum. Píratar eru ekki tengdir neinum sérhagsmunahópum og vilja ekki vera það. Þannig að við leitum frekar í kraft fjöldans til þess að styrkja okkur og vonumst til að fá góðar undirtektir hjá þjóðinni,“ segir Sigríður Bylgja Sigurjónsdóttir, framkvæmdastjóri Pírata, í samtali við Vísi.

Hópfjármögnunarsíðunni var komið upp í kvöld. Þar segja Píratar að fram undan sé mikið kynningarstarf á stefnumálum þeirra og því þurfi þeir sárlega á stuðningi almennings að halda. Margt smátt geri eitt stórt.

„Góðir Íslendingar, okkur sárvantar stuðning til að geta komið skilaboðum Pírata rækilega á framfæri við almenning í aðdraganda alþingiskosninga í haust. Í krafti fjöldans náum við framúrskarandi árangri,“ segir á síðunni.

Sigríður Bylgja segir að til standi að hafa söfnunina opna fram að kosningadegi í október. „Það er ekki alveg búið að fastsetja kosningadag þannig að við erum ekki með nákvæma dagsetningu á hvenær við munum loka fyrir söfnunina. En ef það safnast rosalega mikið og meira en við þurfum á að halda þá verður afgangurinn látinn renna í gott málefni,“ segir hún.

Framlag frá hverjum einstaklingi eða lögaðila má að hámarki vera 400 þúsund krónur samkvæmt lögum um fjármál stjórnmálaflokka, en finna má styrktarsíðu Pírata hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×