Innlent

Grunuð um að hafa banað ungabarni sínu

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Mynd úr safni.
Mynd úr safni. vísir/getty
Bresk kona er í haldi frönsku lögreglunnar eftir að fimm mánaða gamalt barn hennar fannst látið í sumarhúsi fjölskyldunnar í bænum Saint-Pée-sur-Nivelle í Basque-héraði í Frakklandi í gærmorgun. Talið er að barnið hafi verið myrt.

Móðirin, sem er um þrítugt, hafði verið í viku löngu sumarfríi með fjölskyldu sinni; eiginmanni og tveimur börnum, og hugðust þau fljúga aftur til Bretlands seint í gærkvöld.

Faðirinn fór fyrstur á fætur í gær en þegar hann kom inn í svefnherbergi, þar sem öll fjölskyldan svaf, upp úr klukkan níu, var barnið lífvana. Hann kallaði strax á aðstoð en var barnið úrskurðað látið á staðnum.

Franskir fjölmiðlar hafa eftir lækni í bænum að fátt bendi til þess að barnið hafi dáið af náttúrulegum orsökum. Franskur saksóknari segir að grunsemdir hafi strax vaknað um að barnið hafi látist af mannavöldum, og að rannsókn lögreglu hefði fljótt beinst að móðurinni.

Konan hefur verið úrskurðuð í gæsluvarðhald um óákveðinn tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×