Innlent

Fimmtán mánaða fangelsi fyrir líkamsárás með byssuskefti

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/GVA
Hæstiréttur hefur staðfest dómsúrskurð Héraðsdóms Suðurlands um að dæma karlmann í 15 mánaða fangelsi vegna sérstaklega hættulegrar líkamsárásar. Maðurinn barði annan mann ítrekað í höfuð og líkama með riffli og sjónauka. Fórnarlambið hlaut tvíbrot í neðri kjálka, skurð á vinstri hlið höfuðs og mar um bak og síður.

Báðir mennirnir segjast lítið sem ekkert muna frá atvikinu sem gerðist í sumarbústað í júní 2012.

Tólf mánuðir af fimmtán eru skilorðsbundnir til tveggja ára. Við ákvörðun refsingarinnar var litið til þess að árásin var sérstaklega hættuleg, en einnig var horft til þess að sá dæmdi hafði ekki áður hlotið refsidóm og að dómurinn var búinn að dragast á langinn.

Í úrskurði héraðsdóms kemur fram að mennirnir hafi setið að drykkju og farið í sjómann. Hvorugur man eftir atvikinu en sá dæmdi kallaði lögregluna til og sagðist hann vera miður sín yfir því að hafa barið mann sem væri á gólfinu. Hann fór að gráta og sagðist telja að fórnarlambið væri látið.

Hann sagði lögreglu að hann hefði hugsanlega barið brotaþola með sjónauka af byssu sinni.

Sjónauki sem maðurinn var barinn með fannst á gólfinu við hliðina á honum, en lögreglan fann riffilinn, brotinn og blóðugan, undir púðum í sófa.

Í úrskurði Héraðsdóms Suðurlands kemur fram að ljóst sé að fórnarlambið hafi ekki verið með umrædda áverka áður en hann kom í bústaðinn, en hann og sambýliskona hans voru í bústað nærri þeim sem sá dæmdi var í. Þá sögðust allir málsaðilar ekki hafa orðið varir við mannaferðir um kvöldið.

Þá báru áverkar á höndum fórnarlambsins þess merki að hann hafi borið hönd fyrir höfuð sér. Þar að auki gefi myndir af vettvangi í skyn að ekki hafi komið til átaka í bústaðnum og þess í stað hafi fórnarlambið orðið fyrir árás. Einu áverkar mannsins sem var dæmdur voru bólgur á hægri hendi.

Maðurinn hafi einnig hringt í lögreglu og sagst hafa barið mann.

Með tilliti til þessara atriða og annarra þótti dómnum yfir skynsamlegan vafa hafið að sá dæmdi hafi gerst sekur um líkamsárásina sem hann var ákærður fyrir.

Maðurinn var, auk fangelsisvistar, dæmdur til að greiða fórnarlambinu rúma milljón króna og 866 þúsund króna í sakarkostnað.

Dóm Hæstaréttar sem og dóm Héraðsdóms Suðurlands má sjá hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×