Hjálmar Sveinsson, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, segir að breyta hafi þurft teikningum til að koma til móts við óskir foreldra en það hafi tekið óþarflega langan tíma.
„Ég var lengi formaður foreldrafélagsins og okkur var lofað samráði við hönnun viðbyggingarinnar. Haustið 2014 var stofnaður samráðshópur foreldra til þess að taka þátt í vinnunni. Við vorum hins vegar aldrei kölluð á fund með borgaryfirvöldum. Okkar upplifun var að borgin vildi ekki afskipti foreldra af framkvæmdinni,“ segir Dalla Jóhannsdóttir, foreldri barns í Vesturbæjarskóla.

Jarðvegsframkvæmdir vegna viðbyggingarinnar hófust í fyrrahaust og við þær misstu nemendur helminginn af útisvæði sínu. Dalla segir að upphaflega hafi átt að nota sumarfríið í fyrra til þess að vinna jarðvegsvinnuna á skólalóðinni. Það hafi ekki tekist og framkvæmdirnar hafist á fyrsta skóladegi í fyrra sem hafði í för með sér að mikil læti voru á skólasvæðinu í nokkrar vikur.
„Teikningin á viðbyggingunni var klár og við buðum út jarðvinnuna til þess að spara tíma. Það sem gerðist svo var að hönnunin var tekin til endurskoðunar að beiðni foreldrafélagsins sem varð til þess að verkið tafðist. Óskin um endurskoðun kom ekki upp fyrr en eftir að við vorum byrjuð á jarðvinnunni og það hefði verið sérkennilegt að fara að moka ofan í holuna aftur. Við ákváðum því að halda áfram með verkið,“ segir Ámundi Brynjólfsson, skrifstofustjóri mannvirkjaskrifstofu Reykjavíkurborgar.
„Þetta er ömurlegt, lóðin er mjög lítil og það er lítið sigrúm fyrir börnin á lóðinni. Við erum mjög hissa á því að ráðist hafi verið í jarðvegsvinnuna strax þegar teikningarnar voru ekki einu sinni tilbúnar,“ segir Dalla.
Áætlað er að bygging viðbyggingarinnar hefjist eftir áramót og taki eitt og hálft ár í smíðum.
Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu