Handbolti

Hanning reiknar með brotthvarfi Dags

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Getty
Sem kunnugt er íhugar Dagur Sigurðsson nú að nýta sér uppsagnarákvæði í samningi sínum við þýska handknattleikssambandið og hætta sem þjálfari þýska liðsins næsta sumar.

Dagur tók við starfinu fyrir tveimur árum síðan og hefur síðan þá tekist að gera Þýskaland að Evrópumeistara og bronsliði Ólympíuleikanna í sumar.

Dagur er samningsbundinn Þjóðverjum til 2020 en á þann möguleika að stíga frá borði í lok júní í sumar. Ljóst er að hann mun stýra Þýskalandi á HM í Frakklandi í janúar en svo gæti farið að það verði hans síðasta stórmót með Þýskalandi.

Sjá einnig: „Ekkert stress þó Dagur hætti“

Bob Hanning er varaforseti þýska handknattleikssambandsins og maðurinn sem réði Dag til Füchse Berlin fyrir sjö árum síðan. Saman náðu þeir frábærum árangri með Berlínarrefina og velgengni Dags hefur svo haldið áfram með þýska landsliðinu.

Dagur Sigurðsson og Bob Hanning.Vísir/Getty
Hanning tjáði sig um stöðu Dags í viðtali við þýsku sjónvarpsstöðina Sport 1 í gær og sagði að það væri enn allt óákveðið og allir möguleikar opnir teldi hann líklegra að Dagur myndi hætta.

„Ég hef það á tilfinningunni að Dagur sé mjög langt kominn með að taka ákvörðun um að gera grundvallarbreytingu á sínu lífi,“ sagði Hanning.

Sjá einnig: Brand: Þýðir ekkert að gráta Dag

Hann segir að Dagur hafi í ýmsa möguleika í huga. „Hann íhugar að flytja, eyða meiri tíma með fjölskyldunni eða feta allt aðra slóð - eitthvað ótengt handbolta,“ sagði hann.

„Þegar kemur að lífsskipulagi Dags þá hef ég ekkert um málið að segja. Ég á engan möguleika. Og Japan snýst á engan hátt um peninga.“

Dagur Sigurðsson er enn landsliðsþjálfari Þýskalands og stýrir liðinu á HM í Frakklandi.Vísir/Getty
Hanning vísaði til þess að Dagur hefur helst verið orðaður við stöðu landsliðsþjálfara Japan, þar sem hann starfaði sem spilandi þjálfari hjá Wakunaga Hiroshima frá 2000 til 2003, en Japan verður gestgjafi á Ólympíuleikunum árið 2020.

Sjá einnig: Engar upplýsingar frá Japan um stöðu Dags

Sjálfur hefur Dagur staðfest að hann sé kominn með tilboð sem hann sé að skoða og muni nota næstu vikur til þess. En Yuji Harano, framkvæmdastjóri handknattleikssamands Japans, sagði við DPA-fréttaveituna í Þýskalandi í vikunni að þar á bæ könnuðust menn ekki við mögulega ráðningu Dags í landsliðsþjálfarastarfið.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×