Innlent

Eineltishegðun á Alþingi

Kristjana Guðbrandsdóttir skrifar
"Ég er að reyna að finna út úr því hvað ég geri mér til lifibrauðs. Ég vil bara að mér líði þannig að ég sé að gera eitthvað sem skiptir máli,“ segir Helgi Hrafn.
"Ég er að reyna að finna út úr því hvað ég geri mér til lifibrauðs. Ég vil bara að mér líði þannig að ég sé að gera eitthvað sem skiptir máli,“ segir Helgi Hrafn. Visir/GVA
Helgi Hrafn Gunnarsson, fyrrverandi þingmaður Pírata, ákvað í sumar að bjóða sig ekki fram í afstöðnum alþingiskosningum. Þess í stað tilkynnti hann að hann ætlaði að leggja krafta sína í grasrót flokksins.

„Ég get hugsað mér að halda áfram í stjórnmálum, en kem ekki á Alþingi í þetta sinn. Ég kem kannski aftur seinna,“ segir hann og útskýrir að það geri hann sérstaklega ef stjórnarskrármálið krefjist þess.

Hann drekkur kaffi á kaffihúsi í Borgartúni með fartölvuna fyrir framan sig á borðinu. Aðspurður um næstu verkefni segist hann vilja gera gagn. „Ég er að reyna að finna út úr því hvað ég geri mér til lifibrauðs. Ég vil bara að mér líði þannig að ég sé að gera eitthvað sem skiptir máli. Vinna að úrbótum, ná mikilvægu markmiði. Það er ansi margt sem er mikilvægt,“ segir Helgi Hrafn og hlær. Hann vill skoða framtíðina með opnum huga.

Af hverju bauðstu þig ekki fram?

„Tja af hverju býður þú þig ekki fram? Það eru svo margar ástæður fyrir því að ég hætti. Það að vera á þingi tekur yfir líf manns. Maður starfar ekki á þingi, maður er þingmaður. Þegar maður tekur þessa ákvörðun þá þarf maður að velja á milli tveggja gjörólíkra lífsstíla, og ég valdi að vera óbreyttur borgari þetta kjörtímabil. Mér finnst ekki gaman að vera stjórnmálamaður. Mér finnst það glatað eins og staðan er núna. Samt finnst mörgum ég góður stjórnmálamaður og ég býð mig sennilega aftur fram en þá verður það ekki til gamans.“

Þetta er töff klemma?

„Já,“ segir Helgi Hrafn og brosir. „En svona er þetta bara.“ En myndir þú þiggja ráðherrastarf? Ef þér yrði boðið það?

„Ég myndi íhuga það eftir atvikum. En ég geri það ekki valdanna vegna. Mér finnst sjúkt að þrá völd. Ég vorkenni fólki sem gerir það. Vald er viðbjóður og fer illa með sumt fólk.“

Hvernig líst þér á stjórnarmyndunarviðræðurnar svona hingað til?

„Ég hef ekki miklar skoðanir á því sem fer fram núna. Við útnefndum þrjá aðila til þess að fara með umboðið fyrir okkar hönd og við treystum þeim til verksins.“

Leið þér illa í starfi á Alþingi?

„Ég hef oft heyrt þá kenningu að ég hafi brunnið út og ekki meikað þetta lengur. Það er ekki rétt, en ef svo væri, hvað með það? En stundum leið mér illa, stundum leið mér vel. Þetta er svo mikið brjálæði, þetta starf.“

Áttu erfið samskipti innan Pírata þátt í að þú hættir?

„Nei, alls ekki. Margir halda að vinnustaðasálfræðingur komi inn til að lýsa því yfir að samskipti séu varanlega ónýt. Og líta á notkun slíkrar þjónustu sem endanlega viðurkenningu á því að eitthvað sé í steik. En þetta eru fagmenn í mannlegum samskiptum til að finna lausnir. Það er nákvæmlega það sem hann gerði. Það fannst fín lausn.“

Hver var hún?

„Ég vil ekki fara út í það. Þetta eru trúnaðarsamtöl um hegðun fólks sem er ekki hérna. Mér finnst það ekki sanngjarnt gagnvart öllum þeim sem unnu að lausn í málinu. Manneskjur eru þannig að þær tjá sig á mismunandi hátt og hafa misjafnar hugmyndir um mörk. Leiðin áfram er að finna leið til þess að vinna áfram saman. Vinnustaðasálfræðingur gefur verkfæri til að vinna að góðum samskiptum. Mér finnst alveg nægja að segja: Eina sem mér finnst hafa erindi til almennings er það að þegar maður er að vinna með fólki sem er með aðra sýn á lífið og tilveruna þá er það á ábyrgð hvers og eins að finna leið til að láta þetta virka.

Við erum líka ekki bara stjórnmálamenn, við erum líka manneskjur,“ segir Helgi Hrafn og segir samskiptaörðugleika oft koma upp í stjórnmálum.

„Samskiptaörðugleikar eru oft vegna þess að fólk er með sterka og ólíka sýn. Það er auðvitað algengt í stjórnmálum. Stjórnmál eru fáránlega óhollt umhverfi.“

Helgi Hrafn segir eineltið hafa mótað sig.Vísir/GVA
Helgi Hrafn segir að hegðun sem þykir eðlileg á Alþingi myndi aldrei líðast annars staðar. „Tölum aðeins um ofbeldi og einelti. Hegðunin sem þykir fullkomlega eðlileg í stjórnmálum myndi aldrei líðast á vinnustað. Þú ferð í pontuna og rökstyður þitt mál. Þá kemur einhver annar í pontuna, tekur það sem þú sagðir, snýr því á hvolf, niðurlægir þig, reynir að gera það sem mest. Þetta er rugl og það eru sjálfsagt einhverjir sem geta ekki sofið. Ég er heppinn því ég get það. Ég hef þraukað í gegnum svo margt í mínu lífi að ég á auðvelt með að glíma við þetta og setja mér mörk,“ segir Helgi Hrafn og vísar í gróft einelti sem hann varð fyrir í æsku.

„Ég gekk í gegnum mjög heiftarlegt einelti í æsku. Það styrkti mig. Vegna þess að ég komst út úr því. Svona meðferð á manneskju breytir hins vegar upplifun hennar á heiminum. Það tekur langan tíma að vinna úr þessu. Að læra að takast á við þetta fyrirbæri, það getur orðið helvíti grimmt. En það getur hjálpað í starfinu á Alþingi að bera kennsl á ákveðna hegðun og setja sér mörk.

Þegar ég er að rökræða um ákveðin málefni þá fer fólk stundum í persónuna og í árásir. Það sem ég geri stundum er að endurvarpa þessu og segja: Allt í lagi, þá ég er ömurleg manneskja, erum við þá búin að ræða það og getum við haldið áfram að ræða málefni? Ég hef engan áhuga á því hvað öðru fólki finnst um mig og nenni ekki svona rugli.“

Hann segir eineltið hafa mótað sig. „Þetta var bæði líkamlegt og andlegt ofbeldi. Einelti útskúfar manni úr samfélaginu. Maður fer að upplifa sig sem viðrini í samfélagi sem maður er ekki hluti af og maður venst því. Maður lærir bara að lifa með þessu.“

Hefur fólk beðið þig afsökunar?

„Sumir hafa beðist afsökunar. Einn og einn. Og sögðu þá að þeim þætti fyrir því hvernig þeir höguðu sér. Fólk skilur ekkert hvað það er að gera. Svo bað mig einn afsökunar sem tók ekki þátt í þessu. Mér fannst það töff. Hann var bara ekki alveg viss en með sterka samvisku.

Ef þetta væri bara einn og einn, þá væri þetta ekki flókið. En einelti virkar þannig að það er allt samfélagið sem tekur þátt í því óbeint. Það þorir enginn sem er ekki að beita mann ofbeldi að vera með manni. Maður verður félagslega eitraður. Einhver, sem líkar ágætlega við mann, þorir ekki að nálgast mann af ótta. Þess vegna gerist þetta að þeir sterku ráða og restin fylgir.“

Að hans mati ættu vinnustaðasálfræðingar að starfa á Alþingi. Einn fyrir hvern flokk. Það myndi bæta vinnubrögð og orðræðu. 

„Þetta er ein af mínum róttæku pælingum. Mér finnst að hver og einn flokkur ætti að vera með vinnustaðasálfræðing í vinnu fyrir sig. Því þetta er svo grimmt og miskunnarlaust. Þetta eru allt góðar manneskjur en eðli starfsins vegna þarf fólk að fá aðstoð. Það er ekki við öðru að búast í þessu starfi en miklum samstarfsörðugleikum. Ég segi það við nýliðana sem eru á leið inn á þing: Ekki láta ykkur detta í hug að það verði einhver friður. Það væri líka gott að hafa viðmið, siðareglur um það hvernig ákveðinn hópur starfar. Þær væru enginn dómstóll heldur bara leiðbeiningar því að í þessu starfi eru öfgar, veikleikar verða áberandi og hæfileikar dýrmætari.“

Helgi Hrafn hefur verið ötull talsmaður þess að bæta vinnubrögð á þingi. „Það er ekki hægt að sinna starfinu jafn vel og fólk heldur. Þú sérð það að samkvæmt þingsköpum þá má þingmaður ekki vera í fleiri þingnefndum en tveimur. En tvö okkar voru í einni aðalnefnd og tveimur öðrum sem áheyrnarfulltrúar. Það er ekki hægt. Það er líkamlega ekki hægt. Ég var í atvinnuveganefnd og allsherjarnefnd á sama tíma. Svo var allt brjálað ef maður mætti ekki í aðra nefndina. Það var bara ætlast til þess að við værum vel inni í starfi allra nefndina. Við höfðum ekki mannskap í þetta. En nú erum við tíu talsins og mætum öflugri til leiks.

En það verður að laga þetta þannig að litlir flokkar geti starfað. Svo er hitt líka, að kjósendur þurfa að minnka væntingarnar.

„Ég kem kannski aftur seinna,“ segir Helgi Hrafn um framtíð sína í stjórnmálum.Vísir/GVA
Ég er hættur að skilja hvað almenningur er að miða við. Ég veit alveg hvernig ég hugsaði um þingmenn áður en ég fór á þing sjálfur. Það er einhver gullinn dýrðarljómi sem þingstörf eru metin eftir. Ég veit ekki alveg hvaðan þessi hugmynd kemur. Hvenær var fólki sagt það að þingmenn almennt læsu öll mál sem færu til þingsins? Hver gaf fólki þessa hugmynd? Hver gaf fólki þá hugmynd að það væri vandamál á þinginu að fólk væri ekki að vinna vinnuna sína? Ég er með tilgátu, það er vegna þess að þingið virkar allt öðruvísi en fólk heldur. Þar ríkir minna skipulag en fólk getur ímyndað sér. Þá hafa stjórnmálamenn alltaf tilhneigingu til þess að láta eins og þeir ráði við þetta allt sjálfir. Þingmaður sem er í viðtalsþætti viðurkennir ekki vankunnáttu. Hann þykist vera vel inni í málum sem hann er ekki vel inni í. Hann býr til þessa falsmynd. Það kemur bara fullt af orðum sem þýða afskaplega lítið.

Maður lærir mjög fljótt að tala þannig. Ég gæti haldið langa ræðu um ekki neitt. Það er mjög einfalt. Margir gera þetta frekar en að segja, ég er að drukkna í málum og ræð ekki við þetta. Enda eru dómarnir sem koma mjög harðir.“

Hvernig fannst þér kosningabaráttan fara fram, var kveikt á ótta við Pírata?

„Já, það var gert. Í þessari kosningabaráttu var búin til vinstri grýla og svo brjálæðingagrýla. Eins og Bjarni Benediktsson orðaði það þá leist honum ekkert á að fá fólk til valda sem ætlaði að taka stjórnarskrána, rífa hana í tætlur og henda henni í ruslið. Mér fellur illa svona tal. Því auðvitað er þetta hugmynd sem enginn hefur stungið upp á. Frekar augljóst. Þetta finnst mér áhugavert við pólitík og það sem ég er mest að pæla í þessa dagana. Það er hvað óheiðarleiki er innbyggður í stjórnmál. Þá er ég ekki bara að tala um óheiðarleika stjórnmálamanna sem birtist í orðum og gjörðum, líka almennings, kjósenda. Bjarni upplifði sig ekkert sem óheiðarlegan, en þetta er þvæla. Niðurlægjandi tal. Mér leiðist þetta,“ segir Helgi Hrafn og tekur fram að það sé umgjörðin og kúltúrinn sem skemmi fyrir.

„Ég er ekkert að taka Bjarna sérstaklega fyrir, þetta á við um alla og þar á meðal mig sjálfan. Það er ekki þannig að menn gangi inn í Alþingishús og breytist í einhverja aumingja. Þetta er allt harðduglegt fólk sem leggur mikið á sig og uppsker lítið. En það má breyta hlutunum til góðs, ég hef trú á því.“
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.