Innlent

Rekstrargrundvöllur ekki tryggður samkvæmt aðalstjórn SÁÁ

nína hjördís þorkelsdóttir skrifar
Um tvö þúsund innlagnir eru árlega á sjúkrahúsinu Vogi.
Um tvö þúsund innlagnir eru árlega á sjúkrahúsinu Vogi. VISIR/HEIÐA
Aðalstjórn SÁÁ lýsir þungum áhyggjum af erfiðum samskiptum samtakanna við ríkisvaldið og ekki síst þeim trúnaðarbresti sem orðið hefur í samskiptum SÁÁ við Sjúkratryggingar Íslands. Þetta kemur fram í ályktun aðalstjórnar samtakanna.

Samkvæmt ályktuninni hafa samskipti samtakanna við ríkisvaldið torveldað þeim að skipuleggja rekstur sinn til langs tíma en til að mynda eru þjónustusamningar um rekstur Sjúkrahússins Vogs aðeins gerðir til eins árs í senn.

Að sama skapi hafa engir samningar verið í gildi um rekstur göngudeilda SÁÁ um tæplega tveggja ára skeið. „Sjúkratryggingar Íslands hafa ekki greitt reikninga samtakanna vegna þeirrar þjónustu en bjóðast þess í stað til að greiða fjárhæð sem er í engu samræmi við tilkostnað og forsendur starfseminnar. Engu að síður hafa samtökin boðið óskerta göngudeildarþjónustu, sem hefur verið kostuð með sjálfsaflafé samtakanna. Það hefur verið gert í trausti þess að fá mætti ráðherra til að skerast í leikinn, tryggja rekstrargrundvöll til framtíðar og standa vörð um lögbundinn rétt sjúklinga samtakanna til heilbrigðisþjónustu,“ segir í ályktuninni.

Aðalstjórn SÁÁ lýsir jafnframt yfir óánægju með framgöngu forstjóra Sjúkratrygginga Íslands sem hún telur hafa miðlað röngum upplýsingum til heilbrigðisráðherra um málefni og fjárhag samtakanna. Stjórnin segir forstjóra Sjúkratrygginga Íslands hafa fullyrt að hagnaður væri af sjúkraþjónustu SÁÁ en að sögn samtakanna á sú fullyrðing ekki við rök að styðjast. SÁÁ lýsir fullri ábyrgð á hendur heilbrigðisráðherra og Alþingi að bregðast við og grípa til ráðstafanna til þess að tryggja rekstrargrundvöll samtakanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×