Innlent

Jóhanna Vigdís býður sig fram fyrir Samfylkinguna

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Jóhanna Vigdís Guðmundsdóttir.
Jóhanna Vigdís Guðmundsdóttir.
Jóhanna Vigdís Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri hjá Háskólanum í Reykjavík, ætlar að gefa kost á sér í flokksvali Samfylkingarinnar í Reykjavík fyrir Alþingiskosningar í haust. Hún mun sækjast eftir þriðja sæti á listanum.

„Ég tek þessa ákvörðun fyrst og fremst vegna þess að ég vil gera gagn. Ég vil gera það með því að taka þátt í stjórnmálum en ekki alltaf vera á hliðarlínunni og ég held að ég geti gert það. Ég er jafnaðarmaður og hef mikla trú á stefnunni. Mér finnst Samfylkingin ekki vera í því fylgi sem hún á inni þannig að ég vil leggja mitt af mörkum þar,“ segir Jóhanna Vigdís í samtali við Vísi.

Jóhanna hefur ekki tekið virkan þátt í stjórnmálum, en var í stjórn Félags ungra jafnaðarmanna á sínum tíma. Hún hefur starfað sem framkvæmdastjóri í Háskólanum í Reykjavík undanfarin fimm ár og var framkvæmdastjóri Listahátíðar í Reykjavík árið 2008, svo fátt eitt sé nefnt.

Aðspurð um hennar helstu stefnumál segir hún að leggja þurfi frekari áherslu á að allir njóti jafnra réttinda, óháð stöðu, aldri eða kyni.

 „Mér finnst að Ísland geti verið og eigi að vera samfélag jafnra tækifæra þar sem allir hafa sömu tækifærin til þess að nýta hæfileika sína. Þar finnst mér til dæmis félagsleg staða, kynferði og aldur koma svolítið inn í. Við eigum að búa í samfélagi þar sem allir geta gert það sama og að konur og karlar fái sömu laun fyrir sömu vinnu. Það finnst mér stórt mál. Eins finnst mér mikilvægt að allir spili eftir sömu leikreglunum og hafi aðgang að sömu upplýsingum, til dæmis í viðskiptalífinu, óháð því hvernig þeir eru tengdir,“ segir Jóhanna Vigdís.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×