Innlent

Forsetafrú hefur átak gegn mænusótt

nína hjördís þorkelsdóttir skrifar
Átaksverkefni UNICEF og Te & Kaffi hófst í morgun.
Átaksverkefni UNICEF og Te & Kaffi hófst í morgun. MYND/UNICEF
Eliza Reid forsetafrú hóf í morgun átakið Klárum málið sem er átaksverkefni UNICEF á Íslandi og kaffihússins Te & Kaffi. Markmið verkefnisins er að berjast gegn útbreiðslu mænusóttar. Landsmenn geta tekið virkan þátt í baráttunni en Te & Kaffi mun gefa andvirði einnar bólusetningar gegn mænusótt af hverjum seldum drykk fram til 18. september. Viðskiptavinum er jafnframt boðið að gefa sömu upphæð til átaksins. 

Þótt mænusóttarveiran sé á undanhaldi er hún mjög smitandi og getur valdið bæði lömun og dauða. Ekki er hægt að lækna hana með lyfjum og því er bólusetning eina úrræðið við henni. Skammtur af bóluefninu kostar einungis 25 krónur.

Te & Kaffi hefur staðið fyrir kaffihúsaátaki ásamt UNICEF frá 2013.MYND/UNICEF
Þetta er í fjórða sinn sem Te & Kaffi stendur fyrir kaffihúsaátaki með UNICEF á Íslandi og í þriðja sinn sem safnað er vegna mænusóttar. Þegar ráðist var í fyrsta kaffihúsaátakið á Íslandi, árið 2013, var mænusótt landlæg í þremur ríkjum og 416 tilvik af sjúkdómnum komu upp á heimsvísu það ár. Núna eru ríkin tvö, Afganistan og Pakistan, og einungis hefur 21 tilvik komið upp í heiminum á þessu ári. 

Hægt er að lesa meira um átaksverkefnið á vef UNICEF á Íslandi.

Mænusóttartilfellum hefur fækkað mikið á undanförnum árum en sjúkdómnum hefur þó enn ekki verið útrýmt.MYND/UNICEF



Fleiri fréttir

Sjá meira


×