Innlent

Eldingu sló niður í sumarbústað í Grímsnesi: „Eins og einhver hafi tekið sprengju og sprengt hana við hliðina á okkur“

Birgir Olgeirsson skrifar
Eldingu sló niður í sumarbústað í Grímsnesi, þó ekki þessi elding, hún er fengin úr erlendum myndabanka.
Eldingu sló niður í sumarbústað í Grímsnesi, þó ekki þessi elding, hún er fengin úr erlendum myndabanka. Vísir/Getty
„Það var eins einhver og hafi tekið sprengju og sprengt hana við hliðina á okkur,“ segir Haraldur Eyvinds Þrastarson þegar hann er beðinn um að lýsa því þegar elding sló niður í sumarbústaðinn hans í Grímsnesi á þriðja tímanum í dag.

Greint var fyrst frá málinu á vef Ríkisútvarpsins.

Óstöðugt loft hefur verið yfir Suðurlandinu í dag. Því getur fylgt miklar skúrir, haglél og þrumur og eldingar. Haraldur stóð við útidyrnar ásamt syni sínum þegar eldingunni sló niður í bústaðinn. Feðgarnir sáu bláleitan bjarma af blossanum sem fylgdi eldingunni en konan hans Haraldar stóð álengdar og sá hvernig neistaði á milli Haraldar og sonar hans.

Feðgunum varð ekki meint af en Haraldur lýsir tilfinningunni sem smá kitli. „Það voru þvílíkar drunur sem fylgdu þessu. Þetta var alveg ofboðslega hár hvellur,“ segir Haraldur. Upplifunin var æði sérstök að hans sögn og minnti þá helst á Ragnarök. „Það vantaði bara að Þór veðurguð mætti niður með þessu,“ segir Haraldur.

Sjá einnig: Hvít jörð í Grímsnesi

Hálftíma áður en gerði haglél með þrumum og eldingu hafði fjölskyldan legið í sólbaði. Þegar Haraldur ræddi við Vísi var aðeins að birta til en engu að síður enn rigning og aðeins sex stiga hiti.

Almannavarnir sendu frá sér í dag þessa ábendingu vegna þrumuveðra:


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×