Innlent

Nóttin hjá lögreglu á landinu: Tveir gistu fangageymslur á Akureyri

Atli Ísleifsson skrifar
Samkvæmt lögreglu á Akureyri er þetta með rólegustu verslunarmannahelgum síðustu ára.
Samkvæmt lögreglu á Akureyri er þetta með rólegustu verslunarmannahelgum síðustu ára. Vísir/Pjetur
Nokkuð var að gera hjá lögreglunni á Flúðum í nótt vegna ölvunar hátíðargesta en fjölmenni er nú á staðnum. Engin alvarleg mál hafa þó verið tilkynnt þar.

Tveir gistu fangageymslur á Akureyri í nótt. Brot annars mannsins var minni háttar en hinn fannst sofandi í bænum og vegna ástands var ákveðið að láta hann sofa úr sér í fangaklefa. Umferð þar nyrðra hefur gengið vel en samkvæmt lögreglu er þetta með rólegustu verslunarmannahelgum síðustu ára.

Sömu sögu er að segja frá Ísafirði þar sem allt fór rólega fram. Lögregla segir að fáir séu í bænum miðað við að nú sé verslunarmannahelgi.

Spennt upp hurð

Í Kópavogi var tilkynnt um mann mann vera að fara í geymslu á mannlausu húsi og bera þar út muni. Maðurinn sagði lögreglu að hann hafi keypt hlutina samkvæmt auglýsingu og átti að sækja hlutina og borga seljanda síðar. Maðurinn hafði spennt upp hurð til að nálgast munina, en munirnir voru teknir af manninum og afhendir eiganda og verður maðurinn kærður fyrir innbrot og þjófnað.

Einn var handtekinn í austurhluta Reykjavíkur grunaður um þjófnað, akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna og að aka sviptur ökuréttindum.

Þá var maður handtekinn í austurbæ Reykjavíkur grunaður um þjófnað, akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna, aka sviptur ökuréttindum og akstur mót rauðu ljósi. Tilkynnt hafði verið um manninn við mannlaust hús á Seltjarnarnesi.

Átta aðrir ökumenn voru einnig stöðvaðir á höfuðborgarsvæðinu í nótt grunaðir um ölvun eða undir áhrifum fíkniefna við akstur.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×