Innlent

Veðrið í dag: Þykknar upp og sums staðar skúrir

Atli Ísleifsson skrifar
Mikið fjölmenni er saman komið á Flúðum.
Mikið fjölmenni er saman komið á Flúðum. Vísir/Jóhann K. Jóhannsson
„Það er heldur hægari vindur í dag. Það þykknar heldur upp sunnan- og vestanlands og má búast við einhverjum skúrum í dag, einkum síðdegis, þá helst inn til landsins,“ segir Helga Ívarsdóttir, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, aðspurð um veðurútlitið í dag.

Helga segir að birti ágætlega til á Norðurlandi vestra, þó síst úti á annesjum, og jafnvel brotni aðeins upp á Norðurlandi eystra. „Það geta verið einhverjar skúrir þar í dag. Það er dálítil væta þarna við austurströndina og á Austurlandi.“

Hún segir að til morguns bæti í úrkomuna þannig að það verða víða skúrir á morgun, sérstaklega öflugar síðdegis. „Norðausturhluti landsins og Vestfirðirnir, þeir sleppa betur. Það verður ekki mikil úrkoma þar. Inn á milli getur þó brotnað svolítið upp. Eins og á Norðurlandi verður heldur hlýrra á morgun og meiri líkur á sól.“

Veðrið var mjög gott suðvestantil í gær þar sem hitinn fór alveg upp í tuttugu gráður. „Það er heldur svalara í dag og á morgun dregur líka úr því. Í dag má búast við sautján, átján gráðum en á morgun verður hitinn fimmtán, sextán. Þá gæti samt líka orðið svipaður hiti fyrir norðan - á Akureyri, Skagafirði og þar.“

Aðspurð um framhaldið segir hún það vera svipað, hægir vindar og skúraleiðingar, einkum síðdegis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×