Innlent

Víkurmálið sent aftur til lögreglu frá héraðssaksóknara

Kristjana Björg Guðbrandsdóttir skrifar
Víkurmálið er komið aftur á borð lögreglunnar á Suðurlandi. ?Fréttablaðið/Þórhildur
Víkurmálið er komið aftur á borð lögreglunnar á Suðurlandi. ?Fréttablaðið/Þórhildur
Nokkur atriði í rannsókn á meintu vinnumansali í Vík í Mýrdal er varða fjármunabrot þarf að kanna betur að mati héraðssaksóknara. Málið var því sent aftur til lögreglunnar á Suðurlandi.

Mansalsmálið kom upp um miðjan febrúar þegar lögregla fann tvær konur frá Srí Lanka í kjallara húss í Vík í Mýrdal. Í kjölfarið var maður grunaður um að hafa haldið konum í vinnuþrælkun. Maðurinn er eigandi fyrirtækisins Vonta International og sætir farbanni í dag.

Fréttablaðið greindi frá málinu í vor og því að maðurinn sem er grunaður um mansal hefði fengið fólk til landsins frá Srí Lanka til að vinna fyrir sig. Maður frá Srí Lanka sem Fréttablaðið ræddi við greindi til að mynda frá því að honum hefði verið boðin vinna hjá fyrirtækinu gegn greiðslu. Maðurinn átti að greiða tæpa milljón íslenskra króna fyrir starfið.

Aðeins einn ársreikningur er til um rekstur Vonta International. Hann er frá rekstrarárinu 2014. Þá tapaði félagið 395.591 krónu. Laun og launatengd gjöld námu 2.562.147 krónum og annar rekstrarkostnaður nam 938.337 krónum. Kostnaður vegna seldra vara nam 1.014.564 krónum.

Hildur Dungal lögfræðingur í Innanríkisráðuneytinu
„Það voru atriði í rannsókninni sem þarf að skoða betur, þau snúa að meintum fjármunabrotum,“ segir Þorgrímur Óli Sigurðsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn á Suðurlandi. „Framhaldsrannsóknin er í algjörum forgangi hjá okkur núna, héraðssaksóknara vantar frekari gögn sem snúa beint að þessum hlutum, við ætlum að treysta undirstöðurnar er viðkemur þessum meintu brotum,“ segir hann.

Þorgrímur Óli segir lögregluna bíða úrvinnslu gagna frá fjármunabrotadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. „Það þarf svo að bera ýmis atriði undir vitni, við trúum að þetta muni ganga ágætlega og muni ekki taka langan tíma,“ segir hann um framvinduna áður en málið verður sent aftur til ákæruvaldsins.

Rannsóknin þótti ganga vel að öðru leyti. Hildur Dungal, lögfræðingur hjá innanríkisráðuneytinu, sem fer fyrir þverfaglegum stýrihópi gegn mansali hefur sagt að lögregla þurfi að rannsaka mansalsmál á breiðari grundvelli. „Lögregla og ákæruvald getur ekki eingöngu byggt á framburði þolenda. Það þarf að leita leiða til að rannsaka málin á breiðari grundvelli. Þá eru meiri líkur á sakfellingu,“ sagði Hildur aðspurð um áskoranir í málaflokknum með tilliti til íslenskra hegningarlaga.


Tengdar fréttir

Taka mið af ábendingum vegna systranna í Vík

Innanríkisráðuneytið segir að vegna umfjöllunar um dvalar- og atvinnuleyfi vilji það að taka fram að ráðuneytið hafi ekki heimild að lögum til að beita sér í einstökum málum en úrlausn umsókna um slík leyfi séu á forræði annars vegar Útlendingastofnunar og hins vegar Vinnumálastofnunar. Fyrirkomulag dvalar- og atvinnuleyfa fórnarlamba mansals er lögbundið og verður því ekki breytt nema með aðkomu Alþingis.

Mansalið í Vík talið þaulskipulagt

Sá grunaði talinn hafa látið tvær systur vinna heimilisstörf auk vinnu fyrir Vonta International. Hann hefur verið látinn laus úr haldi.

Mansal í Vík: Í farbanni næstu tvo mánuði

Héraðsdómur Suðurlands hefur úrskurðað karlmann sem grunaður er um að hafa haldið tveimur konum í vinnuþrælkun á heimili sínu í Vík í Mýrdal í áframhaldandi farbann til 25. maí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×