Zúistar vöktu mikla athygli í fjölmiðlum fyrir síðustu áramót fyrir stefnu sína, sem felur í sér ádeilu á sóknarnefndarkerfið svonefnda. Hétu þeir að endurgreiða öllum þeim sem skráðu sig í félagið sóknargjöldin sem félagið fengi greitt úr Ríkissjóði samkvæmt lögum um trúfélög.
Rúmlega þrjú þúsund manns skráðu sig í félagið, sem eftir stendur sem eitt stærsta trúfélag landsins. En í ársbyrjun var greint frá því að smávægilegt babb hefði komið í bátinn, zúistar fengju ekki að skrá rekstrarfélag hjá ríkisskattstjóra og stjórnarmenn þess vegna beðið um frest á greiðslu sóknargjalda til sín.

Samkvæmt heimildum Vísis telur fyrri hópurinn, sá sem stofnaði félagið upphaflega og er skráð fyrir rekstrarfélaginu í fyrirtækjaskrá, sig þó enn í forsvari fyrir félagið. Ágreiningur virðist vera milli hópanna tveggja hvað það varðar. Fyrri hópurinn hefur þannig stefnt Ríkissjóði til greiðslu sóknargjaldanna sem síðari hópurinn hefur lofað að endurgreiða meðlimum.
Hvorugur hópurinn vill mikið tjá sig um málið en síðari hópurinn staðfestir þó að stefnan á hendur Ríkissjóði sé á höndum stofnenda félagsins og að mál þeirra sjálfra séu í meðferð í stjórnsýslunni.

Ísak Andri Ólafsson, forstöðumaður nýrrar stjórnar zúista, var í viðtali við Vísi fyrir áramót spurður hvort stjórnin gæti tryggt það að meðlimir félagsins fengju sóknargjöldin endurgreidd þar sem aðrir væru í forsvari fyrir rekstrarfélagið.
„Já, þetta er mjög eðlileg spurning,” sagði Ísak. „Málið er hins vegar það að endurskoðandinn okkar og lögmaðurinn okkar eru að leggja lokahönd á samning um nýtt rekstrarfélag zúista. Gamla rekstrarfélagið er enn virkt núna en þessir fyrrum stjórnendur trúfélagsins eru ekki í stjórn og ég veit ekki einu sinni hvort þeir eru skráðir í trúfélagið.“
Kastljós greindi frá því í fyrra að hópurinn sem nú hefur stefnt Ríkissjóði telji þrjá einstaklinga, þar af tvo bræður sem hafi nýlega verið til rannsóknar vegna meintra fjármálabrota hér á landi. Fyrirtaka í máli þeirra gegn Ríkissjóði fór fram við Héraðsdóm Reykjavíkur í vikunni.