Innlent

Fimm ára fangelsi fyrir fíkniefnasmygl: Voru komin í tæplega níu milljóna fíkniefnaskuld

Bjarki Ármannsson skrifar
Birgitta og Hlynur voru handtekin í bænum Fortaleza í norðausturhluta Brasilíu á annan í jólum með tæplega fjögur kíló af kókaíni í fórum sínum.
Birgitta og Hlynur voru handtekin í bænum Fortaleza í norðausturhluta Brasilíu á annan í jólum með tæplega fjögur kíló af kókaíni í fórum sínum. Mynd/Brasilíska lögreglan/Getty
Upphæðirnar sem þau Birgitta Gyða Estherardóttir Bjarnadóttir og Hlynur Kristinn Rúnarsson segjast hafa skuldað glæpamönnum hér á Íslandi vegna fíkniefnanotkunar námu samtals tæplega níu milljónum króna.

Þetta kemur fram í dómnum yfir þeim tveimur, en þau hlutu bæði fimm ára fangelsisdóm í Brasilíu á mánudag fyrir fíkniefnasmygl. Þau voru handtekin í bænum Fortaleza í norðaustur Brasilía milli jóla og nýárs með tæplega fjögur kíló af kókaíni í fórum sínum.

Fyrir dómi sögðu þau Birgitta og Hlynur „þekkta glæpamenn“ á Íslandi hafa skipulagt og borgað fyrir ferð þeirra til Brasilíu. Þessir aðilar hefðu hótað að nauðga Birgittu og drepa þau ef þau tækju ekki að sér að fara út.

Sjá einnig: Erfitt að vita af barninu sínu í brasilísku fangelsi

Birgitta sagðist skulda þeim fjörutíu þúsund Bandaríkjadali, um 4,9 milljónir íslenskra króna, vegna kókaínkaupa, og Hlynur um 3,6 milljónir króna. Þeim hafi verið sagt að þessi skuld yrði felld niður ef þau færu til Brasilíu og kæmu fíkniefnunum til Evrópu. Efnin sem fundust á þeim eru í dómnum sögð um sjötíu milljóna króna virði.

Í dómnum segir að Birgitta og Hlynur hafi nafngreint þá aðila sem hafi skipulagt smyglið og meðal annars lagt fram samskipti á Facebook sem verjandi þeirra hafi sagt sýna fram á hótanir sem þau hafi verið beitt. Dómurinn komst þó að þeirri niðurstöðu að þau samskipti væru ekki nóg til að sýna fram á tengsl þessara manna við smyglið.


Tengdar fréttir

Erfitt að vita af barninu sínu í brasilísku fangelsi

Íslenskt par hefur verið dæmt í rúmlega fimm ára fangelsi í Brasilíu fyrir að reyna að smygla fíkniefnum úr landinu. Móðir stúlkunnar segir málið hafa reynst fjölskyldu hennar erfitt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×