Skoðun

Orð og efndir

Þórir Stephensen skrifar
Vegna andófs míns og annarra gegn miklu byggingarmagni á sk. Útvarpsreit við Efstaleiti varð ég mér úti um Samstarfssáttmala meirihluta borgarstjórnar Reykjavíkur frá 11. júní 2014. Þar er margt fallegt að finna, sem ég hlýt að taka undir heils hugar, og við lesturinn vaknar ósjálfrátt þakklæti fyrir að lúta leiðsögn fólks með slík markmið.

Í inngangi segir m.a.: „Við viljum friðsælt, réttlátt og frjálslynt samfélag þar sem allir sitja við sama borð og lúta sömu leikreglum. ... Virðing fyrir öllu fólki ... verður sett í öndvegi. Síðast en ekki síst viljum við, að það sé ekki bara okkar vilji sem gildi. Við viljum efla lýðræðið svo að kraftur allra borgarbúa nýtist við stefnumörkun og ákvarðanatöku hins opinbera. Við hlustum á alls konar raddir og sköpum þeim vettvang. Með opnari stjórnsýslu verður samræðan upplýstari, ákvarðanatakan skilvirkari og sáttin meiri.“

Um stjórnkerfi og lýðræði er þetta skráð: „Gagnsæi og aukið íbúalýðræði er eitt af meginverkefnum kjörtímabilsins. Markmiðið er að auka traust, bæta upplýsingamiðlun og hvetja til lýðræðislegrar þátttöku.“

Loks segir um umhverfis og skipulagsmál: „Kynning og upplýsingagjöf til íbúa verði bætt í tengslum við skipulagsmál bæði stór og smá. Hverfisskipulag verði unnið í nánu samráði við íbúa viðkomandi hverfa.“

Ég hef valið hér úr það sem snertir beint málflutning okkar sem andæft höfum gegn skipulagi Útvarpsreitsins. Þann 1. júní var ég á kynningarfundi í Háaleitisskóla. Þar var hópur arkitekta, sem borgin hefur ráðið til að rýna skipulag borgarhlutans sem við byggjum og leita eftir hugmyndum okkar um betri byggð. Mér finnst þessi vinnubrögð til fyrirmyndar og við mættum mikilli lipurð og hjálpsemi reyndra fagmanna. Þeir hafa starfað síðan 2014.

Í andstöðu við fögur fyrirheit

En á liðnu ári tóku borgaryfirvöld tvö svæði út fyrir sviga, sem hópurinn hefur því ekki sinnt. Þessi svæði eru Grensásvegurinn og Útvarpsreiturinn. Við íbúa næst Grensásveginum var haft samráð eftir því sem borgarstjóri upplýsti á fundi í hverfinu nýlega. Um Útvarpsreitinn gegnir hins vegar allt öðru máli. Þar finnst mér flest, ef ekki allt, í andstöðu við hin fögru fyrirheit Samstarfssáttmálans. Án þess að virða nágrennið viðtals var í lok janúar 2015 efnt til hugmyndasamkeppni um reitinn. Henni var lokið 30. júní sama ár. Tillögurnar voru kynntar, ein þeirra valin og verðlaunuð af yfirvöldum, en íbúalýðræðið virðist hafa gleymst. Loforð Samstarfssáttmálans um náið samráð við íbúa hverfisins svikið, að allir sitji við sama borð hefur trúlega gleymst, virðing fyrir öllu fólki hrakin úr öndvegi, það niður lagt að hlusta á alls konar raddir og skapa þeim vettvang.

Á liðnum mánuðum hef ég skrifað tvær greinar um þetta mál, auk þess sem ég hef komið athugasemdum á framfæri við það mikla byggingarmagn, sem á að koma á þessum reit og verður varla nefnt annað en ferlíki. Ein þeirra varðar umferðina. Ég taldi einn daginn bílana á stæðum Útvarpsins. Þeir voru 240 og virðist það venjulegur fjöldi. Þarna á nú að byggja 361 íbúð og 800 fermetra atvinnuhúsnæði. Sé reiknað með 1,5 bílum á íbúð, verða þeir 541. Við þá bætast kannski 24 bílar vegna atvinnuhúsnæðisins. Þeir verða þá 565 sem hugsanlega mæta þeim áður nefndu 240 bílum tvisvar á dag þegar umferðarþunginn er mestur. Ég er ekki sérfræðingur í þessum málum en eins og umferðin er í dag á hinum miklu álagstímum fyrri og seinni part dags, þá efa ég að gatnakerfið þoli þessa viðbót.

Hvers vegna var talað við Grensásvegarfólkið en ekki okkur hér í Leitunum? Hvers vegna fáum við ekki að njóta íbúalýðræðisins? Hvers vegna er okkur ekki sýnd sú virðing að reyna að ná með okkur, í upplýstri samræðu, góðri sátt um nýtingu þess ágæta umhverfis sem við búum í? Sýnist mönnum sem orð og efndir fari saman hjá yfirvöldum í Reykjavík? Er það bara þeirra vilji sem á að ráða? Ég hlýt að óska eftir svörum frá borgarstjórn og helst á almennum, vel auglýstum fundi með nágrönnum Útvarpsreitsins.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 15. júní.




Skoðun

Sjá meira


×