Innlent

Lítið traust borið til nýrrar ríkisstjórnar

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá ríkisráðsfundi á Bessastöðum í gær þar sem ný ríkisstjórn Sigurðar Inga Jóhannssonar tók til starfa.
Frá ríkisráðsfundi á Bessastöðum í gær þar sem ný ríkisstjórn Sigurðar Inga Jóhannssonar tók til starfa. Vísir/Anton Brink
Rösklega fjórðungur Íslendinga ber mjög eða fremur mikið traust til nýrrar ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. 65 til 66 prósent ber fremur eða mjög lítið traust til ríkisstjórnarinnar og þar af 54 til 55 prósent mjög lítið. Þetta kemur fram í nýrri könnun Maskínu, sem framkvæmd var í gær eftir að nýja ríkisstjórnin tók til starfa.

Þar kemur fram að einungis tveir bakgrunnshópar séu þar sem fleiri bera mikið traust til ríkisstjórnarinnar en lítið. Það eru kjósendur ríkisstjórnarflokkanna tveggja. 81 prósent kjósenda Sjálfstæðisflokksins bera mikið traust til hennar og um 91 prósent kjósenda Framsóknarflokksins.

Karlar bera frekar traust til ríkisstjórnarinnar en konur og þá eykst traustið með aldri fólks. Ríkisstjórnin nýtur minnst trausts í Reykjavík, en mest er traustið á Austurlandi.

Þá kemur í ljós að þeir sem segjast hafa fylgst vel með atburðum síðustu daga segjast bera minna traust til ríkisstjórnarinnar.

Tæp tuttugu prósent segjast bera fremur eða mjög mikið traust til Sigurðar Inga Jóhannessonar, forsætisráðherra, og hátt í tveimur af þremur bera fremur eða mjög lítið traust til hans.

Um 26 prósent segjast bera mjög eða frekar mikið traust til Bjarna Benediktssonar sem fjármálaráðherra. Tæp 62 prósent segjast bera lítið traust til hans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×