Innlent

Framkvæmdastjóri FÍB dregur í efa að eftirsjá tryggingafélaganna sé raunveruleg

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Runólfur Ágústsson segir tryggingafélögin vera að bregðast við þrýstingi viðskiptavina.
Runólfur Ágústsson segir tryggingafélögin vera að bregðast við þrýstingi viðskiptavina. Vísir/Auðunn
Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri FÍB, segir baráttunni ekki lokið þó tryggingafélögin hafi ákveðið að lækka arðgreiðslur til hluthafa sinna. Þau séu einungis að reyna að bjarga orðsporinu og að bregðast við miklum flótta viðskiptavina og kröfum um betri viðskiptakjör. 

„Þarna hefur orðið ákveðin sjóðasöfnun og við breytingar á uppgjörsreglum þá telja félögin að peningar sem viðskiptavinirnir hafa lagt félögunum til vegna þess að þau hafa í raun, miðað við þessa niðurstöðu, verið að ofáætla tjón í gegnum tíðina,“ segir Runólfur sem telur að einhvern veginn þurfi að ráðstafa þeim fjármunum með þeim hætti að neytendur njóti góðs af.

„Auðvitað eru þau að bregðast við og hafa væntanlega orðið fyrir því að viðskiptavinir eru að sýna þeim að það er ekki sjálfgefið að það sé hægt að traðka á þeim án þess að það komi niður á fyrirtækjunum,“ segir hann.

Runólfur segir að það þurfi að fylgja málinu eftir. „Ég dreg í efa að það sé einhver raunveruleg eftirsjá,“ segir hann. „Það kom fram í yfirlýsingu þessara félaga í gær að þau eru ekki að lýsa því yfir að þetta muni hafa áhrif með jákvæðum hætti á iðgjöld viðskiptavina.“

„Fyrirtækin komast upp með það að skilja á milli fjármálastarfsemi annars vegar og hins vegar vátryggingarstarfsemi,“ segir hann. „Fjármunatekjurnar koma af þeim iðgjöldum sem er verið að innheimta og þeim sjóðum sem er verið að byggja upp til að mæta tjónum. Auðvitað er það hluti af rekstri fyrirtækisins og það á að koma viðskiptavinum til góða ef það er góð heildarniðurstaða af fyrirtækjunum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×