Innlent

Angraði fólk og með skotvopn í bílnum

Atli Ísleifsson skrifar
Maðurinn var vistaður í fangageymslu.
Maðurinn var vistaður í fangageymslu. vísir/heiða helgadóttir
Lögreglu var tilkynnt um mann sem var að angra fólk og hafa í hótunum við það á hóteli í austurbæ Reykjavíkur á öðrum tímanum í nótt. Lögregla handtók manninn sem hafði hótað að valda fólki skaða og fannst skotvopn í bíl hans. Maðurinn var vistaður í fangageymslu, að því er segir í dagbók lögreglu.

Um svipað leyti var lögreglu tilkynnt um meðvitundarlausa konu á skemmtistað í miðbænum. Virðist sem liðið hafi yfir hana og var hún flutt á slysadeild til aðhlynningar.

Á fimmta tímanum í nótt var ökumaður í höfuðborginni stöðvaður, grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna. Við leit fannst eggvopn sem ökumaður var með í bandi um hálsinn og ók hann án ökuréttinda.

Nokkru síðar var annar ökumaður stöðvaður í akstri og reyndist hann vera með útrunnin ökuréttindi frá 2008. „Ökumaður neitaði að gefa upp dvalarstað. Þegar lögreglumenn ætluðu að ganga frá málinu á vettvangsform ók viðkomandi af stað. Var honum veitt eftirför og stöðvaði hann skömmu síðar. Við athugun reyndist hann vera undir áhrifum fíkniefna,“ segir í dagbók lögreglu. Maðurinn var látinn laus að lokinni blóðtöku.

Þá voru nokkrir stöðvaðir, grunaður um ölvun við akstur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×