Innlent

Á geðgjörgæslu eftir niðurstöðu kærunefndar

Kristjana Björg Guðbrandsdóttir skrifar
Dega fjölskyldan fer til Albaníu þann sextánda mars að öllu óbreyttu. Visar liggur á geðgjörgæsludeild 32 A á Landspítala vegna sjálfsmorðshugsana.
Dega fjölskyldan fer til Albaníu þann sextánda mars að öllu óbreyttu. Visar liggur á geðgjörgæsludeild 32 A á Landspítala vegna sjálfsmorðshugsana. Fréttablaðið/Anton
Visar, elsti sonur hjónanna Skënder og Nazmie Dega, var lagður inn á geðgjörgæsludeild um síðustu helgi vegna sjálfsmorðshugsana.

Nýverið var Dega-fjölskyldunni kynnt niðurstaða kærunefndar útlendingamála um að henni verður vísað úr landi á meðan mál hennar er fyrir dómstólum. Að öllu óbreyttu þann 16. mars næstkomandi.

Visar glímir við alvarleg geðræn veikindi og hefur sótt meðferð við þeim á Laugarási með góðum árangri hingað til.

Í læknisvottorði umönnunaraðila er mælt með því að hann sé ekki fluttur á milli meðferðaraðila og hvað þá úr landi á meðan á meðferð hans stendur vegna álags sem því fylgir. Í sama vottorði er mælt með tveggja ára samfelldri meðferð til að ná tökum á sjúkdómi hans. Sams konar meðferð er ekki að fá í Albaníu.

„Starfsmenn á Laugarási hafa stutt dyggilega við bakið á honum og mættu til að mynda þó nokkrir þeirra á lögreglustöðina á Hverfisgötu þegar fjölskyldunni var kynntur úrskurðurinn því þeir vissu hvaða áhrif neikvæður úrskurður myndi hafa á hann,“ segir Björg Valgeirsdóttir, lögfræðingur fjölskyldunnar, sem ætlar sér að óska eftir endurskoðun ákvörðunar um að vísa þeim úr landi á meðan mál þeirra er fyrir dómi í ljósi breyttra aðstæðna.

Dega-fjölskyldan leitaði hælis hér á landi í lok júlí í fyrra. Þau hjónin eiga þrjú börn, Visar, Vikar og Joniöndu og hefur undanfarna mánuði búið í Hafnarfirði þar sem yngri systkinin ganga í skóla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×