Körfubolti

Sjáðu kraftmikil leikhlé Teits: „Þetta er ekki spurning um að vinna eða tapa“

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Teitur Örlygsson, aðstoðarþjálfari Njarðvíkur, stýrði liðinu gegn Haukum í stað Friðriks Inga Rúnarssonar þegar það tapaði, 85-79, gegn sjóðheitu liði Hauka á heimavelli í gærkvöldi. Friðrik Ingi var frá vegna veikinda.

Njarðvíkingar eiga erfitt uppdráttar þessa dagana enda tveir lang bestu leikmenn liðsins; Haukur Helgi Pálsson og Logi Gunnarsson, frá vegna meiðsla. Haukarnir náðu mest 24 stiga forskoti í seinni hálfleik en þegar munurinn var fimmtán stig, 75-60, tók Teitur Örlygsson leikhlé sem vakti mikla athygli.

„Þetta er ekki spurning um að vinna eða tapa. Þetta er spurning um hvernig við ætlum að vinna og hvernig við ætlum að tapa. Við ætlum að bera þetta inn í úrslitakeppnina. Munið að við eigum bara eftir að styrkjast. Við verðum bara betri og betri og betri,“ sagði Teitur við sína menn.

Ljónin tóku herforingjann sinn á orðinu og sóttu hart að Haukum næstu mínútur. Þegar Njarðvík minnkaði muninn í níu stig, 79-70, tóku Haukar leikhlé og þá sagði Teitur meðal annars við sína menn:

„Munið hvað ég sagði: Mér er skítsama hvort við vinnum eða töpum þessum leik. Þetta er það sem ég vill sjá. Þetta er það sem við ætlum að gera næstu vikur, strákar. Gerum þetta að vana.“

Kjartan Atli Kjartansson og sérfræðingar hans í Dominos-Körfuboltakvöldi í gær voru eðlilega heillaðir af þessum leikhléum og hvernig Teitur virkjaði unga leikmenn Njarðvíkur til að gefa frábæru liði Hauka alvöru leik.

„Það er eitt sem grípur mig strax og er ólíkt öðrum íslenskum leikhléum. Það er þögn í kringum hann. Það eru allir að hlusta á hvað Teitur Örlygsson er að segja,“ sagði Kjartan Atli sem lék á sínum ferli sem leikmaður undir stjórn Teits hjá Stjörnuni.

„Þú ert með leikmann sem hefur orðið tíu sinnum Íslandsmeistari. Þetta er algjör sigurvegari. Það er eins gott að mennirnir á bekknum hlusti,“ sagði Fannar Ólafsson. „Teitur er fremstur íslenskra þjálfara í leik (e. in game coach). Hann kann að hvetja lið áfram á erfiðum og auðveldum stundum.“

Alla umræðuna má sjá í spilaranum hér að ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×