Innlent

Missti dóttur sína úr heilahimnubólgu

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Móðir sautján mánaða stúlku sem lést úr heilahimnubólgu segir mikilvægt að íslensk heilbrigðisyfirvöld taki upp bólusetningu gegn heilahimnubólgu B, líkt og bresk yfirvöld gerðu nýlega. Það gæti komið í veg fyrir að önnur börn hljóti sömu örlög og dóttir hennar.

Breskir fjölmiðlar hafa undanfarna daga fjallað mikið um mál tveggja ára stúlku, Faye Burdett, sem lést fjórtánda febrúar síðastliðinn af völdum heilahimnubólgu B. Málið hefur vakið mikla athygli í Bretlandi. Ekki síst vegna þess að þarlend heilbrigðisyfirvöld tóku í september á síðasta ári að bólusetja börn gegn þessari tegund heilahimnubólgu, en Faye litla hafði ekki verið bólusett. 

Heila­himnu­bólga B or­sak­ast af bakt­eríu­sýk­ingu sem get­ur náð inn í heila­himn­urn­ar og leitt til dauða. Á Íslandi eru börn bólusett gegn heilahimnubólgu C, en ekki heilahimnubólgu B. 

Sóley Sævarsdóttir missti sautján mánaða dóttur sína, Hrafnhildi Líf, árið 2003 eftir að hún veiktist af heilahimnubólgu B. Hún segir fréttirnar af litlu stúlkunni í Bretlandi rífa upp sárin, en læknir sendi Sóley heim með Hrafnhildi daginn áður en hún missti meðvitund vegna veikindanna og vaknaði aldrei aftur.

„Svo komum við heim og hún verður ennþá veikari. Ég hringi upp á læknavakt um kvöldið og þá er mér sagt að gefa henni stíl og bíða þrátt fyrir að ég hafi lýst ástandi hennar. Ég hringi líka upp á barnaspítala og fæ sömu svör. Svo förum við að sofa og hún vaknar um nóttina og er mjög veik. Ég hringi upp á Læknavakt til að reyna að fá lækni hingað heim og fæ þau svör að þar sé tveggja tíma bið. Svo ég skelli á og ætla að fara að undirbúa hana til að fara bara upp á spítala þegar hún missir meðvitund í fanginu á mér,“ segir Sóley.

Sóley segir heilbrigðisstarfsfólk ekki hafa hlustað á sig þegar hana grunaði að Hrafnhildur litla væri alvarlega veik. Það sé nístandi sárt að hugsa til þess að hægt hefði verið að koma í veg fyrir dauða hennar hefði fengist rétt greining strax og hún leitaði til læknis. Sóley hvetur foreldra til að vera ákveðna í samskiptum við heilbrigðisstarfsfólk gruni þá að eitthvað alvarlegt sé að.

„Og hlusta á móðurhjartað. Við vitum alltaf fyrir bestu hvað er að.“

Hjá Landlækni hefur ekki verið rætt alvarlega að bólusetja íslensk börn fyrir heilahimnubólgu. Sóley hvetur íslensk heilbrigðisyfirvöld til að taka bólusetninguna upp sem fyrst. 

„Auðvitað. Þetta ætti bara að vera skylda inni í öllum bólusetningum. Svo er líka bara dýrt að missa börn, mannslíf eru meira virði en peningar,“ segir Sóley. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×