Innlent

Kastaði grjóti í gegnum rúður í Breiðholti

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Visir/Vilhelm
Lögreglan fékk tilkynningu um líkamsárás á skemmtistað í miðborginni laust fyrir klukkan 3 í nótt. Þar hafði flösku verið kastað í andlit manns sem hlaut skurð á enni. Var hann fluttur á slysadeild til aðhlynningar en gerandinn handtekinn og vistaður í fangageymslu. Maðurinn verður yfirheyrður þegar af honum rennur.

Ekki liðu nema tólf mínútur þangað til lögreglan þurfti aftur að skakka leikinn á skemmtistað í borginni. Þá höfðu dyraverðir tekið mann tökum sem lét ófriðlega eftir að hafa verið neitað um inngöngu. Voru alls þrír vegna málsins, tveim var síðan sleppt ein einn var vistaður í fangageymslu en hann hafði sig mest í frammi. Sá hinn sami verður yfirheyrður þegar af honum rennur

Þá var tilkynnt um rúðubrot í íbúð í Breiðholti um klukkan hálf tvö í nótt. Íbúar voru sofandi þegar grjóti var kastað í gegn um rúður í húsinu. Engan sakaði og ekki er vitað um tjónvald.

Það var svo á sjötta tímanum þegar tilkynnt var um mann sem hafði fallið af svölum í borginni. Talið er að um tveggja til þriggja metra fall hafi verið að ræða. Maðurinn var fluttur með sjúkrabifreið á slysadeild en ekki er greint frá því í hvaða ástandi maðurinn var eða hvernig fallið bar að.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×