Árásin átti sér stað aðfaranótt föstudagsins 14. mars í fyrra á skemmtistaðnum Loftinu í Austurstræti. Margir voru vitni að árásinni, líkt og Vísir greindi frá. Bent er gefið að sök að hafa slegið Friðrik ítrekað í andlitið þannig að hann brotnaði á vinstra nefbeini, hlaut bólgur og mar og sprungna vör. Friðrik hefur sagt árásina „fólskulega.“
Fyrir dómi benti verjandi Bents á að hann hefur játað brotið og sýnt iðrun. Rottweiler-hundurinn fyrrverandi kom meðal annars fram í útvarpsþættinum FM95BLÖ stuttu eftir árásina og sagðist þar hafa komið afsökunarbeiðni til Friðriks. Hann sagðist búast við því að hljóta dóm vegna árásarinnar.
Viðtalið við Bent má hlusta á í spilaranum hér að neðan. Það hefst þegar ein klukkustund og 38 mínútur eru liðnar af þættinum.
Meint brot Bents varðar við 1. málsgrein 218. greinar almennra hegningarlaga og getur varðað allt að þriggja ára fangelsi. Þá gerir Einar Hugi Bjarnason, lögmaður Friðriks, kröfu um rúmlega fjórar milljónir króna í skaðabætur fyrir hönd umbjóðanda síns.
Árni Helgason, verjandi Bents, færði þó rök fyrir því fyrir dómi að heimfæra ætti brot Bents undir 217. grein sömu laga þar sem ekki væri fullsannað að Friðrik hefði nefbrotnað við árásina. Minniháttar líkamsárásir heyra undir 217. grein en í dómaframkvæmd hefur munurinn á 217. og 218. grein verið afmarkaður við beinbrot brotaþola.

Sem fyrr segir, fer lögmaður Friðriks Larsens fram á rúmlega fjögurra milljóna króna skaðabætur. Segir hann Friðrik enn ekki hafa náð sér, hann sé enn að hitta sálfræðing vegna hennar og hafi sýnt einkenni áfallastreituröskunar við læknisskoðun. Þá hafi hann farið til Lundúna beint í kjölfar árásarinnar þar sem hann vildi ekki sýna illa útleikið andlit sitt vinum og samstarfsfélögum.
Bent var ákærður fyrir líkamsárás árið 2010 fyrir árás sem átti sér stað fyrir utan skemmtistaðinn Prikið árið 2008. Honum var ekki gerð refsing fyrir verknaðinn í Hæstarétti vegna þess að brotið var talið fyrnt.