Innlent

Nýju hjúkrunarheimili fagnað í Árborg

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Ásta Stefánsdóttir, bæjarstjóri Sveitarfélagsins Árborgar sem fagnar fréttum af nýju hjúkrunarheimili sem verður byggt á Selfossi á næstu þremur til fimm árum.
Ásta Stefánsdóttir, bæjarstjóri Sveitarfélagsins Árborgar sem fagnar fréttum af nýju hjúkrunarheimili sem verður byggt á Selfossi á næstu þremur til fimm árum. Vísir/Pjetur/Árborg
„Það eru afar góðar fréttir fyrir þetta svæði að bygging hjúkrunarheimilis sé komin á dagskrá,“ segir Ásta Stefánsdóttir, bæjarstjóri í Árborg um byggingu nýs hjúkrunarheimilis í sveitarfélaginu. Heimilið í Árborg verður með fimmtíu rýmum.

Samstarfsnefnd um opinberar framkvæmdir hefur fallist á framkvæmdaáætlun heilbrigðisráðherra sem felur í sér byggingu þriggja nýrra hjúkrunarheimila á næstu fimm árum. Alls verða hjúkrunarrýmin 214 talsins – í Reykjavík, Kópavogi og Árborg – og er nemur áætlaður heildarkostnaður framkvæmdanna 5,5 milljörðum króna.

„Það hefur um langa hríð verið mikil þörf fyrir fjölgun hjúkrunarrýma og biðlistar í Árnessýslu verið langir. Algengt hefur verið að fólk hefur þurft að fara mjög langt frá heimilum sínum á hjúkrunarheimili og það er mikið ánægjuefni að þjónustan færist nær íbúum,“ segir Ásta.

Náðu eyrum ráðamanna

Ásta segir að á síðustu misserum hafi mikil vinna farið fram bæði hjá Sveitarfélaginu Árborg og innan Héraðsnefndar Árnesinga og Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga sem hefur miðað að því að vekja athygli á því hve staðan hefur verið slæm og að þrýsta á um að ákvörðun verði tekin um að hefja framkvæmdir.

„Það er ljóst að við höfum náð eyrum ráðamanna og næstu skref verða væntanlega þau að hefja viðræður við heilbrigðisráðuneytið um framhald málsins,“ segir Ásta.

Lögum samkvæmt skulu sveitarfélög greiða hluta kostnaðar við byggingu hjúkrunarheimila, eða ekki minna en 15% stofnkostnaðar, en rekstur slíkra heimila fellur ekki undir lögboðið hlutver sveitarfélaga.

En er búið að ákveða hvar nýja heimilið verður staðsett?

„Nei, ekki er búið að taka formlega ákvörðun um staðsetningu hjúkrunarheimilis, en horft hefur verið til svæðis sem sveitarfélagið á norðan við Hagalæk og Móaveg á Selfossi, endanleg staðsetning verður ákveðin í deiliskipulagi“, segir bæjarstjórinn.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×