Starfsfólk bráðadeildar Landspítalans hafði í nógu að snúast þessa nýársnótt líkt og fyrri nýársnætur. Færri leituðu þó á deildina eftir flugeldaslys en áður.
„Við höfum séð mikið af pústrum og slysum í tengslum við áfengi. Við höfum séð tíu flugeldaslys í nótt, þar af eitt augnslys, en mest hafa þetta verið brunar á höndum í tengslum við handblys og skotelda sem menn hafa verið að halda á,“ segir Jón Magnús Kristjánsson, bráðalæknir á bráðadeild Landspítalans.

Jón segir mikilvægt að þeir sem að noti handblys séu í vettlingum eða hönskum. Á meðal þeirra sem slösuðust í nótt var eitt barn sem brann á höndum eftir að hafa verið með blys. Það barn var með vettlinga og segir Jón ljóst að verr hefði farið ef svo hefði ekki verið.
Jón telur að um einhvers konar galla hafi verið að ræða í blysunum.
„Það sem okkur hefur sýnst vera að gerast er að þegar kveikt er á blysinu, þá á eldurinn að skjótast út úr toppi blyssins. En svo virðist sem eldurinn hafi getað borist niður í botninn á blysinu og þar hafi það sprungið. Þess vegna komist eldur á hendina á þeim sem er að stjórna því,“ segir Jón. „Ég man ekki til þess að hafa séð þessi slys í svona miklum mæli. Það er líklegt að einhver galli hafi verið í blysunum.“
Hann segir að um fleiri en eina tegund af blysum hafi verið að ræða. Þá sé erfitt að fullyrða hvort þau hafi verið öll verið frá sama söluaðila en svo virðist sem þau hafi verið frá fleiri en einum.