Stjórnvöld í Írak, rétt eins og fjöldi trúarleiðtoga í Austurlöndum nær, hafa fordæmt aftöku Sádí-Araba á trúarleiðtoganum Sheikh Nimr al-Nimr og segja að hún muni hafa alvarlega afleiðingar fyrir konungsfjölskyldu landsins.
Alls voru 47 teknir af lífi dag fyrir hryðjuverk og fyrir að hvetja til ofbeldis í Sádí-Arabíu. Fyrrnefndur Nimr al-Nimr var sakfelldur fyrir að vera helsti hvatamaðurinn að mótmælum gegn ráðamönnum í austurhluta landsins árið 2011. Þetta eru fjölmennustu aftökurnar vegna slíkra saka í landinu frá árinu 1980 þegar 63 voru teknir af lífi fyrir gíslatöku í Mekku.
Aftökurnar eru sagðar, á vef Financial Times, fyrst og fremst hugsaðar til að sýna herskáum súnní-múslimum og stjórnarandstæðingum af síta-trú að hið íhaldssama ríki líði enga óhlýðni við íslamska valdahafa landsins.
Klerkar í Íran, Jemen og Líbanon hafa fordæmt aftökurnar og segja að þær muni leiða til víðtækrar reiði enda hafi al-Nimr verið í hávegum hafður í mörgum samfélögum múslima. Hann hafi verið einn helsti gagnrýnandi stjórnvalda í Sádí-Arabíu og mikill talsmaður lýðræðis. Hann hafi þá einnig verið tregur við að hvetja til ofbeldis.
Talsmaður íranska utanríkisráðuneytisins sakaði stjórnvöld í Riyadh um hræsni: „Stjórnvöld í Sádí-Arabíu styðja við bakið á hryðjuverkamönnum og takfiri [múslimar sem saka aðra múslima um vantrú] meðan þau taka af lífi og berja niður gagnrýnendur heima fyrir,“ sagði Hossen Jaber Ansari í samtali við íranska ríkismiðilinn í dag. Þá beittu lögreglumenn í Barein táragasi á mótmælendur sem mótmæltu dauða al-Nimr.
Ayatollah Ahmad Khatami, háttsettur trúarleiðtogi í Íran, sagði af þessu tilefni að allar líkur væru á að aftakan myndi verða konungsfjölskyldunni í Sádí-Arabíu að falli.
Aftökur draga dilk á eftir sér
Stefán Ó. Jónsson skrifar
