Erlent

Dregið úr mæðradauða á heimsvísu

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Dauðsföllum tengdum óléttu hefur fækkað um helming.
Dauðsföllum tengdum óléttu hefur fækkað um helming. vísir/getty
Tíðni mæðradauða á heimsvísu hefur lækkað um helming síðasta aldarfjórðunginn, samkvæmt nýrri alþjóðlegri skýrslu sem birt var í vísindatímaritinu Lancet. Tölurnar eru þó ekki í samræmi við þau markmið sem Sameinuðu þjóðirnar settu árið 2000, þar sem stefnt var að því dauðsföll yrðu 75 prósent færri árið 2015 en þau voru árið 1990.

Í skýrslunni segir að líkurnar á að kona deyi mæðradauða séu einn á móti 4.900 í tekjuhærri þjóðum, á meðan konur búsettar í Afríku sunnan Sahara eru í umtalsvert meiri hættu, en þar eru líkurnar einn á móti 36. Til samanburðar má nefna að í Bretlandi eru líkurnar einn á móti 5.800.

Þá segir að þrátt fyrir að  góður árangur hafi náðst sé úrbóta enn þörf víða, en bróðurpartur dauðsfallanna eiga sér stað í þróunarlöndum. Um 53 milljónir kvenna fá enga aðstoð í fæðingu og þá er víða litla sem enga heilbrigðisaðstoð að fá.

Skýrsluhöfundar segja jafnframt að árangurinn sé  misjafn eftir heimshlutum. Segja þeir það sæta furðu að til dæmis í Brasilíu fari um fjörutíu prósent þungaðra kvenna í keisaraskurð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×