Fótbolti

Alfreð fékk ekki að spila fjórða leikinn í röð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alfreð Finnbogason.
Alfreð Finnbogason. Vísir/Getty
Það breytist ekki mikið í gríska fótboltanum þessa dagana, Olympiakos vinnur alla leiki og íslenski landsliðsmaðurinn Alfreð Finnbogason þarf að dúsa allar 90 mínúturnar á varamannabekknum.

Alfreð Finnbogason kom ekkert við sögu í kvöld þegar Olympiakos vann 3-1 útisigur á Skoda Xanthi í grísku úrvalsdeildinni. Olympiakos hefur þar með fullt hús, 12 stig, eftir fyrstu fjórar umferðirnar.

Alfreð byrjaði inná í 3-0 sigri á Panionios Athens í 1. umferð en hefur síðan ekki fengið að spila eina einustu mínútu. Alfreð var ekki í hópnum í 2. umferð en hefur síðan verið á bekknum í síðustu þremur leikjum, einum í Meistaradeildinni og tveimur í grísku deildinni.

Kostas Fortounis skoraði tvö síðustu mörk Olympiakos í leiknum í kvöld en mörkin komu með þriggja mínútna kafla eftir að leikmenn Skoda Xanthi höfðu jafnað metin í 1-1.

Jimmy Durmaz kom Olympiakos í 1-0 á 42. mínútu en Nikolay Dimitrov jafnaði metin á 49. mínútu.

Nígeríumaðurinn Brown Ideye lék allan leikinn sem fremsti maður hjá Olympiakos en tveimur miðjumönnum og einum varnarmanni var skipt útaf í leiknum í kvöld.

Olympiakos var fyrsta liðið til að skora hjá Skoda Xanthi liðinu á tímabilinu en auk þess að vera með 12 stig af 12 mögulegum þá er liðið með markatöluna 11-2.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×