Innlent

Umræðan: Píratar á góðri siglingu

Heiða Kristín Helgadóttir skrifar
Mikið fylgi Pírata var meðal annars til umræðu í þættinum í gær.
Mikið fylgi Pírata var meðal annars til umræðu í þættinum í gær. Vísir
Baldur Héðinsson stærðfræðingur segir fylgi Pírata vera orðið nokkuð fast um og yfir þrjátíu prósent, enda hafi flokkurinn verið að mælast svona hjá öllum könnunaraðilum síðustu mánuði.

„Þetta er bara þeirra fylgi í dag, sem er stórmerkilegt,“ segir Baldur.

Baldur var gestur Heiðu Kristínar í Umræðunni ásamt þeim Huldu Þórisdóttur, doktor í stjórnmálasálfræði, og Kolbeini Óttarrssyni Proppé, blaðamanni á Fréttablaðinu, í gærkvöldi. Þau gerðu upp þingveturinn og rýndu í tölur og stöðuna í stjórnmálunum.

Heiða Kristín ræddi líka við fulltrúa allra flokka á þingi og bað þá að lýsa stöðunni eins og hún horfir við þeim, eins tók hún stöðuna á almenningi og spurði hvernig fyrirmyndar stjórnmálaflokkur væri saman settur.

Hulda telur að fylgi Pírata megi skýra með tilliti til skorts á trausti, sem Alþingi hafi alfarið mistekist að byggja upp í kjölfar hrunsins.

„Ég held að fólk treysti ekki hinum flokkunum og Píratar hafi ekki verið staðnir að óheilindum,“ segir Hulda. „Þeir hafa ekki valdið neinum vonbrigðum ennþá.“

Hulda segir kjósendur Pírata ekki falla inn í hefðbundna hópa kjósenda.Vísir/Vilhelm
Björt framtíð mældist með 3,3 prósenta fylgi í síðustu könnun Fréttablaðsins en flokkurinn er nýr á þingi eins og flokkur Pírata. Hann virðist þó samkvæmt þessu ekki kalla fram sömu hughrif og Píratar, þó flokkurinn hafi um tíma mælst næst stærsti flokkur landsins.

Hulda segir muninn milli þessara flokka vera mjög greinilegan pólitískt.

„Píratar eru eitthvað allt annað, á meðan Björt framtíð hefur frekar fallið inn í landslagið sem er. Miðað við kjósendur annarra flokka, falla kjósendur Pírata ekki inní þann hóp svo glatt. Þeir eru meira út um allt og falla ekki að þessum hefðbundnu skilgreiningum.“

Baldur benti þó á að Björt framtíð hefði verið að mælast hærri í öðrum könnunum og að þessi mæling væri nær því að mæla ákveðna stöðu þessa stundina. Hann segist telja að flokkurinn sé ennþá „inni á þingi.“

Kolbeini fannst svör Ragnheiðar Ríkharðsdóttur skera sig helst til úr, þegar fulltrúar flokkanna voru beðnir um að meta stöðu síns flokks.

„Ætli hún sé ekki að undirbúa eitthvað embætti í flokknum,“ segir Kolbeinn og bætir við að Ragnheiður tæki fulla ábyrgð á þeim átakastjórnmálum sem iðkuð eru á þingi. Því var einnig velt upp við borðið hvort Ragnheiður væri að undirbúa forsetaframboð.

Kolbeinn benti einnig á að Vinstri grænir uppskeri ekki meira fylgi, jafnvel þó náttúruverndarmál hafi komist á dagskrá með rammaáætlun og formaður flokksins njóti mjög mikils trausts. Hann sagði flokkinn þó þola nokkuð vel að vera lítill flokkur. Öðru máli gegndi með Samfylkinguna, sem hefði verið stofnuð til að vera höfuðandstæðingur Sjálfstæðisflokksins og sameina vinstrimenn. Það væri ekki að takast.  

Hulda sagði verkefni stjórnmálaflokka við að byggja upp traust vera líkt því og þegar maki heldur framhjá.

„Þú mátt ekki einu sinni sjá SMS sem er vafasamt hjá makanum, þá er allt farið til fjandans.” 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×