Innlent

Framlög Íslands hækka um 11%

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Niðurstaðan felur í sér að tollfrjálsir kvótar fyrir fersk karfaflök fara úr 850 tonnum í 2.000 tonn.
Niðurstaðan felur í sér að tollfrjálsir kvótar fyrir fersk karfaflök fara úr 850 tonnum í 2.000 tonn. vísir/stefán
Framlög Íslands til Uppbyggingarsjóðs EES munu hækka um 11,3 prósent. Samningaviðræðum milli EFTA-ríkjanna innan EES og ESB um framlög til sjóðsins fyrir tímabilið 1. maí 2014 til 30. apríl 2021 er lokið. Fyrri samningur rann út í lok apríl 2014.

Í frétt á vef utanríkisráðuneytisins segir að samningaviðræður hafi staðið yfir á annað ár þar sem mikið hafi borið á milli aðila í upphafi. Samhliða þessum viðræðum hafi farið fram viðræður um endurnýjun samninga um tiltekna tollfrjálsa innflutningskvóta fyrir sjávarafurðir frá Íslandi inn á markað ESB.

Niðurstaða samninga inniheldur meðal annars að hækkun framlaga til uppbyggingarsjóðs EES milli tímabila nemur 11,3 prósentum, sem er í takt við verðlagsbreytingar frá árinu 2009.

Þá felur niðurstaða samninga í sér að árlegir tollfrjálsir kvótar fyrir humar aukast úr 580 tonnum í 1.000 tonn, fyrir fersk karfaflök úr 850 tonnum í 2.000 tonn og nýr kvóti bætist við fyrir unna þorsklifur upp á 2.500 tonn.

Samningurinn gildir í sjö ár, eða frá 1. maí 2014 til 30. apríl 2021.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×