Innlent

Kúnni afboðaði tíma hjá lækni í kjölfar fjarheilunar

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
María Jónasdóttir nuddar ekki fólk heldur heilar það. Því miður fannst ekki mynd af einhverjum sem var að fjarheila.
María Jónasdóttir nuddar ekki fólk heldur heilar það. Því miður fannst ekki mynd af einhverjum sem var að fjarheila.
Viltu losna úr fjötrum fortíðar og finna fyrir innra frelsi? Á þeim orðum hefst auglýsing inn á Hópkaup.is þar sem boðið er upp á tilboð á fjarheilun með Maríu Jónasdóttur. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem þjónusta Maríu er inn á Hópkaup en í fyrra nýttu níu manns sér tilboð hennar.

Í auglýsingunni segir að heilunin sé klukkustund en María segir lengdina mismunandi efitr því hve mikið þurfi að gera. Það geti tekið þrjár mínútur og það geti tekið lengri tíma. „Ég veit að heiluninni er lokið þegar ég sé Jesú standa yfir áru fólks,“ segir hún. Að eigin sögn hafa um þrjúhundruð manns þegið aðstoð hennar.

„Fjarheilun virkar þannig að ég er í raun millistykki milli alheimsorkunnar, það er Guðs, og þess sem á að heila,“ segir María í samtali við Vísi en hún er að eigin sögn ekki aðeins heilari heldur einnig sjáandi. „Ég leggst á bæn og bið fyrir fólki og oftar en ekki sé ég eins og röntgenmynd hvað það hefur gengið í gegnum.“

Útilokar ekki að geta heilað stærri sjúkdóma

María hefur lokið kvöld- og helgarnámskeiðum í NLP-þjálfun og framhaldsnámskeiðum í þeim. NLP stendur fyrir neuro-linguistic programming en stofnendur þess telja að tenging sé á milli tauga og tungumálsins. Stofnendur NLP töldu að tæknin gæti nýst þeim sem þjást af ýmsum fóbíum, ofnæmi, þunglyndi og fleirum kvillum. Engar vísindalegar staðfestingar liggja til grundvallar NLP fræðunum en María útilokar ekki að hún geti heilað fleiri kvilla.

„Ég fullyrði ekki að ég geti heilað alla líkamlega kvilla en ég útiloka það ekki. Ég get til að mynda sagt þér frá konu sem kom til mín og var svo ógurlega slæm í hnjánum. Hún var á biðlista eftir því að komast til læknis en prófaði að koma til mín í millitíðinni. Eftir tíma í heilun hjá mér afpantaði hún læknistímann,“ segir María.

Vill aðeins hjálpa

Í lýsingu tilboðsins segir að nauðsynlegt sé að gefa upp nafn þess sem heila á auk einhvers sem einkennir hann. Fjarlægð skiptir engu máli og segir María að þjónusta sín geti gagnast hverjum sem er, jafn vel þó hann sé staðsettur í Kína.

„Þegar við fæðumst þá erum við hrein en eftir að við fæðumst verðum við strax fyrir alls konar áreiti og það getur skilið eftir sig alls konar stíflur í líkama okkar. Það er nauðsynlegt að heila slíkt í burtu til þess að koma í veg fyrir að það þróist ekki yfir í alvarlegri sjúkdóma.“

Eins og áður hefur verið sagt benda engar lærðar rannsóknir til þess að fjarheilun beri árangur og í raun eru þeir fleiri sem halda því fram að hún sé svindl heldur en staðreynd. Við vantrúaða hefur hún þetta að segja. 

„Ég býð fólki upp á þessa þjónustu og sé það óánægt með hana þá endurgreiði ég hana að fullu. Það hefur bara ekki komið til þess. Ég vil bara hjálpa.“

Uppfært 23. júlí 13.17 Tilboðið hefur nú verið fjarlægt af síðu Hópkaupa.


Tengdar fréttir

„Ég trúi þessu alveg 100 prósent“

Hobbý-heilarinn Júlíus Júlíusson hefur eytt milljón krónum í diska, filmur og námskeið til að læra heilun og notar hana til að hjálpa fjölskyldu og vinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×