Innlent

Telja að starfið yrði ekki eins faglegt

Fanney Birna Jónsdóttir skrifar
Mönnunarvandi Yfir 260 hjúkrunarfræðingar á Landspítala hafa sagt upp störfum.
Mönnunarvandi Yfir 260 hjúkrunarfræðingar á Landspítala hafa sagt upp störfum. vísir/vilhelm
Hjúkrunarráð Landspítala varar í nýrri ályktun við því að litið sé á hjúkrunarleigu sem lausn á mönnunarvanda meðal hjúkrunarfræðinga innan heilbrigðiskerfisins.

„Slíkar lausnir eru neyðarúrræði svo hægt sé að veita grunnneyðarþjónustu, líkt og veitt er í verkfalli. Slík þróun myndi leiða af sér verulega faglega afturför, ógna þeirri uppbyggingu sem þegar hefur átt sér stað og hefta áframhaldandi uppbyggingu í íslenskri heilbrigðisþjónustu,“ segir í ályktuninni.

Ráðið segir að stofnun hjúkrunarleiga kunni að vera lausn til að halda hjúkrunarfræðingum og þar af leiðandi reynslu og þekkingu innan Landspítala í umönnun sjúklinga. Hins vegar sýni reynsla spítalans og þeirra sem þekkja til erlendis að faglegar skyldur leigðra hjúkrunarfræðinga gagnvart stofnuninni séu ekki þær sömu og starfsmanna spítalans.

„Fagleg framþróun á þjónustu við sjúklinga og aðstandendur þeirra, hagræðing í rekstri, uppbygging á starfsemi, efling þverfaglegrar teymisvinnu, kennsla og fræðsla situr á hakanum.“

Hjúkrunarráð segir starfsánægju hjúkrunarfræðinga og tryggð þeirra við stofnunina og skjólstæðinga hennar vera það sem ríkisstjórnin eigi að leggja allt sitt kapp í að varðveita.

„Ef til hjúkrunarleiga kæmi gæti verið verulega erfitt, jafnvel ógerlegt, að snúa til baka."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×