Innlent

Foreldri með forsjá eftir brot gegn barni

Snærós Sindradóttir skrifar
Halldóra segir að barnaverndanefndir geti tekið ákvarðanir um tímabudna forsjársviptingu sem varir í tvo mánuði.
Halldóra segir að barnaverndanefndir geti tekið ákvarðanir um tímabudna forsjársviptingu sem varir í tvo mánuði. vísir/vilhelm
Foreldrar sem hafa brotið alvarlega af sér halda stundum forsjá barna sinna í óþökk barnanna. Á laugardag fjallaði Fréttablaðið um mál Einars Hildarsonar, en móðir hans slasaði hann lífshættulega í stunguárás. Í viðtalinu gagnrýndi hann þá staðreynd að móðir hans hefði haft forræðið yfir honum í rúm tvö ár eftir atvikið.

„Þetta tekur alltaf ákveðinn tíma en þarna getur verið að sá tími hafi verið lengri en efni stóðu til,“ segir Halldóra Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri Barnaverndar Reykjavíkur. Einar lýsir því í viðtalinu að móðir hans, sem vistuð var á réttargeðdeildinni að Sogni, hafi þurft að skrifa undir umsókn hans í framhaldsskóla og hafi haft lögbundinn rétt á upplýsingum um líf hans.

Halldóra Dröfn Gunnarsdóttir
„Ég geri mér grein fyrir því að tvö ár í svona ferli eru langur tími. Atburðurinn er það alvarlegur að það er mjög eðlilegt að fólk spyrji sig af hverju foreldri sé ekki svipt forsjá um leið,“ segir Halldóra. Hún segir að ef samþykki foreldris liggur fyrir um að barn skuli vistað utan heimilis sé síður gripið til forsjársviptingar. „Það getur verið að engum hafi fundist það neitt sérstaklega áríðandi vegna þess að það hafi ekki reynt á þolmörk þess hver væri með forsjá og ekki með forsjá. Þrátt fyrir allt er verið að leita að samvinnu fólks um þær ákvarðanir sem þarf að taka í lífi barna.“

Á endanum fengu móðuramma og afi Einars forsjá yfir honum. „Hins vegar eru margir foreldrar sem hafa framið mjög alvarlega glæpi sem halda forsjá barna sinna í ákveðinn tíma, en þetta var líklega óþarflega langt.“

Bragi Guðbrandsson, forstjóri Barnaverndarstofu, segir að tímabundnar forsjársviptingar séu leið til að kanna hvort barn geti farið aftur á heimili sitt. 

„Árið 2002 var gerð sú breyting að svokallað frumúrskurðarvald í barnaverndarmálum fluttist til dómstólanna. Eftir það hafa barnaverndarnefndir enga lagaheimild til að úrskurða í svona stórum málum.“

„Barnaverndarnefndir geta tekið ákvarðanir um tímabundna forsjársviptingu sem varir í tvo mánuði. Á þessum tveimur mánuðum á nefndin að leggja mat á hvort það sé barninu fyrir bestu að vera skilað aftur til foreldris eða hvort það eigi að svipta foreldrið forsjá,“ segir Bragi.


Tengdar fréttir

Mamma reyndi að drepa mig

Einar Zeppelin Hildarson komst lífshættulega slasaður undan móður sinni eftir stunguárás. Systir hans lést í árásinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×