Innlent

Útreikningum ólokið í tæplega 300 málum

Ingvar Haraldsson skrifar
Tekið hefur lengri tíma en til stóð að afgreiða umsóknir hjá ríkisskattstjóra.
Tekið hefur lengri tíma en til stóð að afgreiða umsóknir hjá ríkisskattstjóra. vísir/anton
Ekki er búið að afgreiða tæplega 300 umsóknir vegna höfuðstólslækkunar verðtryggðra húsnæðislána hjá ríkisskattstjóra.

Stefnt er að því að ljúka afgreiðslu umsókna fyrir lok júlí. „Það er ekki alveg víst að það náist því það er verið að bíða eftir upplýsingum þriðja aðila í sumum tilfellum,“ segir Jarþrúður Hanna Jóhannsdóttir, sviðsstjóri höfuðstólsleiðréttingar hjá ríkisskattstjóra.

„Það eru fyrst og fremst eftir mál þar sem kalla hefur þurft eftir upplýsingum frá einstaklingum þar sem upplýsingar í framtölunum hafa ekki verið fullnægjandi til að geta reiknað út lánin og það berast ekki svör frá umsækjendum,“ segir hún.

Jarþrúður bætir við að afgreiðsla mála hafi tekið lengri tíma en til hefði staðið. „Í nokkrum tilfellum höfum verið að reyna að finna út úr þessu með fjármálastofnunum og það hefur tekið lengri tíma heldur en æskilegt hefur verið í sumum tilvikum,“ segir hún. Þá segir Jarþrúður að í sumum tilfellum séu mál óafgreidd sem snúi að einstaklingum sem hafi verið með mál til afgreiðslu hjá umboðsmanni skuldara.

Skúli Eggert Þórðarson ríkisskattstjóri sagði í samtali við RÚV þann 15. júní að stefnt hefði verið að því að birta alla útreikninga fyrir miðjan júlí. Hann hafði áður sagt að ljúka ætti afgreiðslu mála fyrir miðjan júní.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×