Innlent

Stefna ríkinu bjóði ráðuneytið ekki bætur að fyrra bragði

Fanney Birna Jónsdóttir skrifar
Gunnar Scheving Thorsteinsson lögreglumaður
Gunnar Scheving Thorsteinsson lögreglumaður
Stefán Eiríksson, þáverandi lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, mátti ekki víkja Gunnari Scheving Thorsteinssyni lögreglumanni tímabundið frá störfum vegna LÖKE-málsins svokallaða.

Þetta er niðurstaða nefndar sem fjallaði um málið á grundvelli 27. greinar laga um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna.

Gunnar sneri aftur til starfa hjá lögreglunni í mars síðastliðnum. Í áliti meirihluta nefndarinnar, sem var skipuð þremur einstaklingum en einn skilaði séráliti, kemur fram að ekki hafi verið grundvöllur til þess að víkja Gunnari úr starfi þrátt fyrir að hann hafi verið grunaður um refsiverða háttsemi.

Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði Gunnar af ákæru um að miðla upplýsingum sem áttu að fara leynt til þriðja aðila. Upphaflega var Gunnar einnig ákærður fyrir að hafa flett upp nöfnum 45 kvenna í upplýsingakerfi lögreglunnar, LÖKE, en sá ákæruliður var hins vegar felldur niður.

Garðar Steinn Ólafsson, lögmaður Gunnars, segir í samtali við Fréttablaðið að þessi niðurstaða þýði að hægt sé að reikna út endanlega bótafjárhæð sem Gunnar mun fara fram á.

„Ég bind vonir við að ráðuneytið biðjist afsökunar og bjóði bætur að fyrra bragði. Ef við náum ekki saman munum við stefna þeim í haust,“ segir Garðar. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×