Innlent

Segja úttekt á höfn unna af vanþekkingu

Snærós Sindradóttir skrifar
Gylfi Ingvarsson Fulltrúi Samfylkingarinnar í stjórn Hafnarfjarðarhafnar.
Gylfi Ingvarsson Fulltrúi Samfylkingarinnar í stjórn Hafnarfjarðarhafnar. vísir/vilhelm
Bókun minnihluta Vinstri grænna og Samfylkingar á fundi hafnarstjórnar Hafnarfjarðar í gær er harðorð í garð skýrsluhöfundar úttektar á Hafnarfjarðarhöfn.

Meðal annars ásaka fulltrúar minnihlutans, þeir Gylfi Ingvarsson og Sigurbergur Árnason, skýrsluhöfund um að hafa reynt að draga sérstaklega fram neikvæða þætti um höfnina.

Úttektin var unnin af Capacent og snýr að stjórnsýslu, fjármálum og rekstri Hafnarfjarðarhafnar síðastliðin tíu ár. Fram kemur í skýrslunni að þótt skuldastaða hafi batnað hafi rekstrarkostnaður hafnarinnar aukist. Það er meðal annars rakið til aukins launakostnaðar.

Eins og áður segir er bókun minnihlutans harðorð. Þar er sagt að í skýrslunni sé vinnutími starfsmanna hafnarinnar tortryggður og að ýjað sé að því að launakjör starfsmanna séu óeðlileg.

Þá er sagt að skýrsluhöfunda skorti framtíðarsýn fyrir höfnina. Ekki sé horft til þess að höfnin sé lífæð Hafnarfjarðar og miklir möguleikar séu fólgnir í henni. Við skoðun á rekstri hafnarinnar og afkomu Hafnarsjóðs hafi nýr samningur við Rio Tinto Alcan í Straumsvík ekki verið tekinn með í reikninginn. Sá samningur stórauki tekjur Hafnarsjóðs og bæti stöðu hans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×