Innlent

Yfirvöld í Kenía hafa lokað barnaskóla ABC

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Fimmtán milljón króna styrkur frá utanríkisráðuneytinu verður ekki hreyfður fyrr en leyst er úr deilunum.
Fimmtán milljón króna styrkur frá utanríkisráðuneytinu verður ekki hreyfður fyrr en leyst er úr deilunum. vísir/gunnar salvarsson
„Síðustu vikur hafa verið þær erfiðustu sem ég hef upplifað,“ segir Þórunn Helgadóttir, sem stödd er í Kenía þar sem skóla ABC hefur verið lokað.

Fréttablaðið hefur greint frá illvígum deilum ABC á Íslandi og ABC í Kenía. Þórunni var sagt upp störfum en hún er föst á því að staða hennar í Kenía sé óbreytt, enda sé um tvö aðskilin félög að ræða. ABC á Íslandi bendir hins vegar á samþykktir ABC í Kenía og að Þórunn þiggi laun samkvæmt ráðningarsamningi við ABC á Íslandi. 

Þá sakar Þórunn ABC á Íslandi um mútur í Kenía og ólögmæta yfirtöku á starfseminni. ABC á Íslandi vísa þeim ásökunum á bug. Þórunn hafi brugðist trausti samtakanna og reynt að sölsa undir sig félagið í Kenía og eignir samtakanna. 

Samúel Ingimarsson og Ástríður Júlíusdóttir eru stödd í Kenía á vegum ABC á Íslandi og voru ráðin tímabundið til starfa á vettvangi. 

„Eitt af því erfiðasta hafa verið allar lygarnar. Stærsta lygin sem borin er fram fyrir þjóðina er að allt sé í himnalagi í skólanum í Naíróbí,“ segir Þórunn og vísar í kynningarfund ABC á Íslandi fyrir styrktarforeldra um starfsemi samtakanna í Kenía. Á fundinn mættu níutíu manns. Styrktarforeldrar voru látnir vita af því að skólinn væri í góðum málum. Tengt var beint við myndaver í Kenía og nemendur skólans fullvissuðu gesti í salnum um að starfsemi ABC í Kenía gengi eðlilega fyrir sig og að fjármunir rötuðu rétta leið.

„Svo er nú engu að síður ekki,“ segir Þórunn. Í síðustu viku hafi barnaverndarfulltrúi á svæðinu gefið út skipun um að loka heimilinu vegna ástandsins. „Þetta var vitað þegar ABC hélt fundinn en þau ákváðu að segja ekki neitt.“





Fríður Birna STEFÁNSDÓTTIR MYND/EDDI
Á heimasíðu ABC á Íslandi segir að skólanum hafi verið lokað af hreinlætisástæðum. Hafin sé athugun á fjármálahlið starfseminnar af opinberri eftirlitsstofnun í Kenía.

Fulltrúar eftirlitsstofnunarinnar könnuðu skólahúsnæðið og komust að þeirri niðurstöðu að hreinlætisaðstöðu væri mjög ábótavant. Svæðinu var lokað þegar í stað.

„Nýtt húsnæði hefur verið fundið og mun starfsemi hefjast að nýju í vikunni,” segir Fríður Birna Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri ABC á Íslandi. 

„Einn af nemendunum var handtekinn fyrir líkamsárás og situr nú inni. Væntanlega sá sami og kom fram á fundi ABC til að sannfæra alla um að allt væri í himnalagi,“ segir Þórunn. Þótt lokunin sé sorgleg hafi hún reynst algjörlega nauðsynleg svo byrja mætti upp á nýtt. 

Á heimasíðu ABC á Íslandi segir að nú séu peningar frá styrktaraðilum sendir milliliðalaust til Kenía. „Peningarnir berast alltaf. Til dæmis sendum við peninga fyrir mat bara beint til birgja og laun fyrir kennarana fara beint á reikning þeirra,“ segir Fríður Birna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×