Innlent

Allt í hers höndum hjá ABC-samtökum

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Lögmaður ABC á Íslandi segir Þórunni segja ósatt og að hún starfi ekki fyrir ABC lengur.
Lögmaður ABC á Íslandi segir Þórunni segja ósatt og að hún starfi ekki fyrir ABC lengur. mynd/gunnar salvarsson
„Það er búið að mynda lítinn her í skólanum sem henti út öllu starfsfólki sem hugsar um börnin nema þeim kennurum sem standa fyrir yfirtökunni,“ segir Þórunn Helgadóttir, formaður ABC barnahjálpar í Kenía, en hún er komin aftur til Kenía eftir nokkurra vikna dvöl á Íslandi. Að hennar sögn er ABC barnahjálp á Íslandi búin að hertaka skóla ABC Barnahjálpar í Kenía í Naíróbí. „Þau nýttu sé nokkra af elstu drengjunum og gefa þeim peninga í staðinn.“

Fréttablaðið greindi frá því á dögunum að illvígar deilur stæðu milli ABC barnahjálpar á Íslandi og ABC barnahjálpar í Kenía. Þórunni var sagt upp störfum en hún er föst á því að staða hennar í Kenía sé óbreytt, enda sé um tvö aðskilin félög að ræða. ABC á Íslandi heldur því hins vegar fram að félagið eigi ABC í Kenía.

Samkvæmt upplýsingum frá utanríkisráðuneytinu eru félögin tveir sjálfstæðir lögaðilar. Þá hefur ráðuneytið gefið ABC fyrirmæli um að fimmtán milljón króna styrkur frá ráðuneytinu verði ekki hreyfður fyrr en greitt hefur verið úr ágreiningi.

Þórunn Helgadóttir
„Þegar ég kom í skólann þá blasti við mér skelfileg sjón. Drengir sem ég þekki sem mikla ljúflinga og ég hef alið upp voru komnir í annarlegt ástand, með steina, prik, boga og örvar,“ segir Þórunn og bætir við að drengirnir samþykki að gera þetta fyrir peninga. 

Þórunn segist ekki skilja hvers vegna samtökin á Íslandi fari ekki löglega leið. „Ef þau halda að þau eigi skólann í Naíróbí ættu þau að fara fyrir dóm til þess að sanna sitt mál,“ segir Þórunn sem harmar ástandið enda hafi hún helgað líf sitt hjálparstarfinu í Kenía. 

Þórunn tilkynnti málið til lögreglu og segir að þá hafi komið í ljós að lögreglan hafi aðstoðað við yfirtökuna. „Lögreglumaðurinn spurði svo hvort við mundum nokkuð tilkynna um þátt hans í málinu á hærri stöðum,“ segir Þórunn og bætir við að í kjölfarið hafi hún hringt í foreldra barna í skólanum og ráðlagt þeim að ná í börnin sín en þeim hafi verið meinað að taka börnin.



Síðastliðinn laugardag var boðaður foreldrafundur í skólanum.„Okkur hjónunum og starfsfólkinu sem hafði verið lokað úti var meinaður aðgangur,“ segir Þórunn en á fundinum var foreldrum sagt að Þórunn hefði stolið miklum peningum úr rekstrinum. „Það var sagt að ABC á Íslandi hafi alltaf verið að senda nóg af peningum en við hefðum étið þá,“ segir Þórunn sem segist hafa verið ásökuð um að hafa stolið 500.000 dollurum. „Sú upphæð er hærri en öll ársvelta starfsins í Kenía. Auðvitað er það ekki satt. Þetta gera þau til þess að afla sér stuðnings foreldranna,“ segir Þórunn sem ætlar að gera allt til þess að koma málunum í réttan farveg. „Þetta eru börnin mín og ég verð að hugsa um hagsmuni þeirra.“ 

„Þórunn er að segja ósatt. Aðalmálið er að hún er hætt störfum fyrir ABC,“ segir Einar Gautur Steingrímsson, lögmaður ABC á Íslandi, og bætir við að samtökin séu ekki í deilum við Þórunni þar sem hún starfi ekki fyrir ABC lengur. „Það er ekki rétt að ABC hafi borgað einhverjum fyrir eitthvað,“ segir Einar.


Tengdar fréttir

Styrktarfé til ABC fryst uns greitt verður úr ágreiningi

Deilur standa nú á milli ABC barnahjálpar á Íslandi og ABC barnahjálpar í Kenía. Utanríkisráðuneytið veitti ABC á Íslandi fimmtán milljóna króna styrk í lok árs 2014 sem hefur verið frystur á meðan deilur standa yfir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×