Innlent

Vísar ásökunum um mútur í Kenía til föðurhúsanna

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
í kenía Þórunn Helgadóttir hefur starfað í Kenía síðan árið 2006.
í kenía Þórunn Helgadóttir hefur starfað í Kenía síðan árið 2006. MYND/GUNNARSALVARSSON
„Það skiptir mestu máli að skólagöngu barnanna verði ekki raskað á nokkurn hátt, en það byggir eingöngu á trausti almennings til okkar,“ segir Fríður Birna Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri ABC barnahjálpar á Íslandi.

Fréttablaðið greindi frá því á dögunum að deilur stæðu milli ABC barnahjálpar á Íslandi og ABC barnahjálpar í Kenía. Þórunni Helgadóttur, formanni samtakanna í Kenía, var sagt upp störfum fyrr á árinu en hún er föst á því að staða hennar í Kenía sé óbreytt, enda sé um tvö aðskilin félög að ræða.

ABC á Íslandi heldur því hins vegar fram að félagið eigi ABC í Kenía.

Þá greindi Fréttablaðið frá því að Þórunn sakaði ABC á Íslandi um mútur í Kenía þar sem stjórnin beri fé á einstaka starfsmenn innan skólans í Kenía í þeim tilgangi að taka yfir skólann með valdi.

Fríður birna stefánsdóttir
Aðspurð hvort ásakanir um mútur í Kenía eigi sér stoð svarar Fríður því neitandi. „Ég vísa ásökununum til föðurhúsanna. Við erum að hugsa um börnin númer eitt, tvö og þrjú og látum þau mál í forgang,“ segir Fríður og bætir við að framfærsla barnanna hafi borist í maí og júní. Þórunn segir hins vegar að engar greiðslur hafi borist í maí og júní.

„Mér sýnst Þórunn hafa unnið mjög gott starf í Kenía og mér finnst ekki í lagi að það sé búið að loka fyrir greiðslur til hennar,“ segir Matthildur Þórðardóttir, styrktaraðili barns í Kenía hjá ABC.

„Enginn segir manni neitt. Ég veit ekki hvað verður um barnið sem ég er að styrkja. Verður það í skólanum hjá Þórunni eða ekki?“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×