Innlent

Styrktarfé til ABC fryst uns greitt verður úr ágreiningi

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Deilur standa nú á milli ABC barnahjálpar á Íslandi og ABC barnahjálpar í Kenía.
Deilur standa nú á milli ABC barnahjálpar á Íslandi og ABC barnahjálpar í Kenía.
„Þeir peningar eru enn á bankareikningi ABC á Íslandi og samtökin hafa ábyrgst að þeir verði ekki hreyfðir fyrr en greitt hefur verið úr þeim ágreiningi sem á sér stað í samtökunum,“ segir Urður Gunnarsdóttir, fjölmiðlafulltrúi utanríkisráðuneytisins. Peningarnir sem um ræðir eru fimmtán milljóna króna styrkur, sem utanríkisráðuneytið veitti ABC á Íslandi í lok árs 2014. Styrkurinn var veittur fyrir heimavist og skóla fyrir götubörn í Naíróbí í Kenía. 

Urður Gunnarsdóttir


Fréttablaðið greindi frá því á dögunum að illvígar deilur stæðu milli ABC barnahjálpar á Íslandi og ABC barnahjálpar í Kenía. Þórunni Helgadóttur, formanni samtakanna í Kenía, var sagt upp störfum en hún er föst á því að staða hennar í Kenía sé óbreytt, enda sé um tvö aðskilin félög að ræða. ABC á Íslandi heldur því hins vegar fram að félagið eigi ABC í Kenía.

Samkvæmt upplýsingum frá utanríkisráðuneytinu er rétt hjá Þórunni að félögin séu tveir sjálfstæðir lögaðilar. „Styrkur ráðuneytisins fer þó í gegnum ABC á Íslandi en er til starfans í Kenía,“ segir Urður. 

Þá greindi Fréttablaðið frá því að Þórunn sakaði ABC á Íslandi um mútur í Kenía þar sem stjórnin bæri fé á einstaka starfsmenn innan skólans í Kenía í þeim tilgangi að taka yfir skólann með valdi. Framkvæmdastjóri ABC á Íslandi neitar þeim ásökunum.

Þórunn Helgadóttirmynd/gunnarsalvarsson


Urður segir að ráðuneytið geri skýrar kröfur um að gerð sé grein fyrir ráðstöfun styrktarfjár. „Þar er stuðst við verklagsreglur sem byggðar eru á fyrirmyndum frá nágrannaríkjum.“

Á síðasta ári var gerð fagleg úttekt á verkefni í Kenía sem ABC á Íslandi hafði hlotið styrk fyrir. ABC í Kenía var samstarfsaðili á vettvangi og sá um framkvæmd. Úttektin gaf góða niðurstöðu og var ákveðið að veita fimmtán milljóna króna styrk fyrir annan áfanga verkefnis í Kenía. „Slíkar úttektir eru gerðar reglulega á verkefnum sem ráðuneytið styður,“ segir Urður og bætir við að opinber þróunarsamvinna fari í ríkari mæli gegnum félagasamtök sem hafa þekkingu af starfi í þróunarlöndum. Þannig eru gerðar ríkari kröfur til félagasamtaka og eftirlit með verkefnum þeirra hert.

Auk ásakana um mútur segir Þórunn að engir peningar hafi borist til barnanna í Kenía í maí og júní. ABC á Íslandi segja það ekki rétt. „Ég og maðurinn minn borguðum alla reikninga í Kenía. Hvert sendu þau þá peningana frá stuðningsaðilum barnanna? Þau verða að sýna fram á millifærslur,“ segir Þórunn um peninga sem styrktarforeldrar á Íslandi hafa greitt fyrir barnið sitt í Kenía.

Þórunn ferðast til Kenía í dag og heldur áfram að reka skólann. „Ég er stofnandi ABC í Kenía og formaður þess félags. Þau geta rekið mig úr ABC á Íslandi en ekki úr formannsstöðunni í Kenía. Þau hafa aldrei greitt mér nein laun fyrir það starf,“ segir Þórunn og bætir við að hún hafi starfað fyrir félagið á Íslandi en í því starfi hafi falist að koma fram fyrir hönd félagsins í Kenía og taka á móti fólki. „Þetta er tvennt ólíkt,“ segir Þórunn sem hlakkar til að komast til Kenía að hugsa um börnin.


Tengdar fréttir

Sakar ABC á Íslandi um mútur í Kenía

Þórunn Helgadóttir hefur helgað líf sitt hjálparstarfi fyrir ABC barnahjálp í Kenía. ABC á Íslandi sagði henni upp en Þórunn heldur starfinu ótrauð áfram. Miklar deilur standa nú milli félaganna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×