Innlent

Fyrirvörum aflétt vegna samnings Landsnets og PCC

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Á myndinni eru Dietmar Kessler, fulltrúi framkvæmdastjórnar PCC, Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets, og Peter Wenzel, aðstoðarforstjóri þróunarsviðs PCC.
Á myndinni eru Dietmar Kessler, fulltrúi framkvæmdastjórnar PCC, Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets, og Peter Wenzel, aðstoðarforstjóri þróunarsviðs PCC.
„Þetta er fyrsta stóra línulagnarverkefnið í mjög mörg ár,” segir Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets, um samning Landsnets og PCC Bakki Silicon um flutning raforku til fyrirhugaðs kísilvers á Bakka við Húsavík.

Í fréttatilkynningu frá Landsneti í gær var greint frá því að öllum fyrirvörum vegna samningsins hefði verið aflétt af hálfu stjórnenda PCC og stjórnar Landsnets. „Fjármögnun er meðal þeirra fyrirvara sem hefur verið aflétt,“ segir Guðmundur og bætir við að undirbúningur framkvæmda sé kominn á fullan skrið.

Samkvæmt samningnum skal Landsnet tryggja orkuflutning til kísilvers PCC frá meginflutningskerfinu og þeim framleiðslueiningum sem tryggja kísilverinu raforku.

Áætluð aflþörf fyrsta áfanga verksmiðjunnar er 52 megavött og er miðað við að orkuafhending hefjist í nóvember 2017. „Þetta er stór og flókin framkvæmd og við höfum verið í rannsóknarvinnu og í undirbúningi í mörg ár. Nú er hönnunarvinnan í gangi og framkvæmdir verða næstu tvö árin,“ segir Guðmundur.

Áætlaður kostnaður við framkvæmdina er 6,5 milljarðar króna. „Þessi kostnaður á bæði við um tengingu iðnaðarsvæðisins á Bakka við Þeistareykjavirkjun og tengingu virkjunarinnar við meginflutningskerfi Landsnets. Auk þess er kostnaður vegna tenginga PCC á Bakka sem Landsnet annast með í þessari tölu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×