Lífið

Útlendingar keppast um miða

Adda Soffía Ingvarsdóttir skrifar
Ásgeir heldur í tónleikaferð til Ástralíu í næstu viku.
Ásgeir heldur í tónleikaferð til Ástralíu í næstu viku.
Á Facebook-síðu Ásgeirs Trausta stendur yfir leikur, fyrir erlenda aðila, þar sem verðlaunin eru ekki af verri endanum. Ferð til Íslands, gisting á hóteli og tveir miðar á tónleikana.

Viðbrögðin hafa vægast sagt verið frábær, en frestur til þess að skrá sig til leiks rennur einmitt út í dag.

„Nú síðast þegar ég gáði höfðu rúmlega 14.200 manns skráð sig, eingöngu erlendir aðdáendur Ásgeirs,“ segir María Rut Reynisdóttir, umboðsmaður hans.

Tilkynnt verður um sigurvegarann strax eftir helgina. Nóg er um að vera hjá Ásgeiri Trausta og hljómsveit, en þeir halda til Ástralíu þann 5. maí. Þar koma þeir fram á fimm tónleikum með hljómsveitinni Alt J, sem einmitt er væntanleg hingað til lands í sumar.

„Fyrstu tónleikarnir verða haldnir í Brisbane 8. maí, og verða frekar stórir, þar sem þeir eru haldnir á stórum íþróttaleikvangi,“ segir María og bætir við: „Ásgeir er mjög vinsæll í Ástralíu, og það verður mjög gaman að fara þangað, þótt ferðalagið sé gríðarlega langt.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×